Erlent

Raðmorðingi tekinn af lífi á morgun

Gary Ray Bowles myrti sex samkynhneigða karlmenn. Hann kenndi þeim um að hafa eyðilagt samband sitt og kærustu sinnar.
Gary Ray Bowles myrti sex samkynhneigða karlmenn. Hann kenndi þeim um að hafa eyðilagt samband sitt og kærustu sinnar. Fangelsismálayfirvöld í flórída
Hinn 57 ára gamli Gary Ray Bowles verður á morgun 99. fanginn sem tekinn er af lífi í Flórídaríki frá árinu 1976. Bowles var sakfelldur fyrir þrjú morð þrátt fyrir að hafa játað á sig sex.

Í frétt BBC um málið segir að Bowles hafi starfað sem vændiskarl árin áður en morðin hófust eftir að hafa flúið æskuheimili sitt í Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum. Fórnarlömb hans voru samkynhneigðir menn og fundust lík þeirra við þjóðveginn sem liggur eftir austurströnd Bandaríkjanna.

Við yfirheyrslu sagðist Bowles hafa kennt samkynhneigðum mönnum um að hafa eyðilagt samband sitt og kærustunnar sinnar, en hún hætti með honum þegar hún komst að því að hann hafði áður stundað vændi. Seinna meir frétti hann af því að hún hafði undirgengist fóstureyðingu sem reitti hann til mikillar reiði.

Bowles var handtekinn í Jacksonville árið 1994 þar sem hann bjó undir fölsku flaggi. Hann hafði áður flutt til Daytona Beach í Flórída eftir að hafa flutt þangað eftir fangelsisvist vegna þjófnaðar, ráns, líkamsárásar og nauðgunar. Yfirvöld höfðu gert viðamikla leit að honum þegar hann loksins fannst.

Fyrr í mánuðinum hafnaði hæstiréttur í Flórída áfrýjun hans og mun hann vera tekinn af lífi á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×