Sport

Dómari úrslitaleiks Wimbledon tennismótsins rekinn í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Damian Steiner.
Damian Steiner. Getty/Clive Brunskill
Dæmdi sögulegan úrslitaleik fyrir rúmum mánuði en var vísað úr starfi fyrir að baða sig í sviðsljósinu.

Damian Steiner dæmdi einn af stærstu úrslitaleikjum tennisársins í júlí síðastliðnum en í gær þurfti hann að taka pokann sinn.

Samtök atvinnumanna í tennis rak hann í gær og ástæðan eru viðtöl sem hann gaf í heimalandi sínu Argentínu án þess að fá til þess leyfi.





Damian Steiner dæmdi magnaðan úrslitaleik Novak Djokovic og Roger Federer á Wimbledon mótinu en það tók fjóra klukkutíma og 57 mínútur að fá fram úrslit. Aldrei áður hefur úrslitaleikur Wimbledon mótsins tekið svo langan tíma.

Damian Steiner er 44 ára gamall Argentínumaður og honum varð á þau mistök að baða sig í sviðsljósinu þegar hann kom heim til Argentínu.

Steiner veitti argentínsku fjölmiðlunum viðtölin án þess að fá leyfi frá ATP og í yfirlýsingu frá samtökunum segir að Damian Steiner hafi margbrotið reglurnar með þessum viðtölum.

„Stærsti hluti viðtalanna brutu hefðbundnar siðareglur dómara þar sem þeir mega ekki ræða sérstök atvik, einstaka leiki, ákveðna leikmenn, aðra dómara eða einstakar reglur, svo þeir geti haldið sínu markmiði að viðhalda hlutleysi í sínu starfi,“ sagði í yfirlýsingunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×