Erlent

Comey braut reglur í tengslum við örlagarík minnisblöð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
James Comey, fyrrverandi forstjóra FBI og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
James Comey, fyrrverandi forstjóra FBI og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
James Comey, fyrrverandi forstjóri Bandarísku alríkislögreglunnar FBI, braut reglur stofnunarinnar þegar hann hélt eftir minnisblöðum sem hann skrásetti eftir fundi hans með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Þá braut hann einnig reglur stofnunarinnar þegar hann lak efni minnisblaðanna til fjölmiðla.

Þetta er niðurstaða rannsóknar bandaríska dómsmálaráðuneytisins sem segir hegðun Comey hafa sett hættulegt fordæmi fyrir aðra starfsmenn FBI. Það er þó niðurstaða rannsóknarinnar að Comey hafi ekki lekið trúnaðargögnum en málinu var vísað til saksóknara til ákvörðunar um hvort sækja ætti Comey til saka vegna málsins. Saksóknarar ákváðu að leggja ekki fram ákæru í málinu.

Minnisblöð Comey vöktu á sínum tíma mikla athygli en í þeim skrásetti Comey hvað fór á milli hans og Trump eftir fundi þeirra í Hvíta húsini. Í einu minnisblaðinu kom fram að Trump hafi ýjað að því að Comey ætti að beita sér fyrir því að rannsókn á Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump, yrði hætt. Trump rak síðar Comey úr embætti forstjóra FBI.

Í frétt CNN segir að fregnir af efni minnisblaðanna hafi meðal annars orðið til þess að hafin var sérstök rannsókn á því hvort að Trump hafi framið lögbrot með því að reyna að hindra framgang réttvísinnar. Rannsókninni lauk fyrr á árinu og var það meðal annars niðurstaða rannsóknarinnar að ekki væri hægt að hreinsa forsetann af sök um að hafa reynt að hindra framgang réttvísinnar.

Reglurnar sem Comey braut snúa að því að starfsmenn FBI megi ekki taka gögn með sér án heimildar FBI. Comey tók heim með sér minnst fjögur minnisblöð og geymdi hann þau í öryggisskáp á heimili sínu. Þá lét hann FBI ekki vita að hann hefði minnisblöðin í sinni vörslu, eftir að hann var rekinn.


Tengdar fréttir

Skýrslan lýsir tilraunum Trump til að skaða rannsóknina

Þrátt fyrir að ekki sé mælt með ákæru í skýrslu Roberts Mueller lýsir hann tilraunum Trump forseta til að leggja stein í götu rannsóknarinnar, þar á meðal með því að vilja reka Mueller sjálfan.

Trump ekki lengur sáttur við skýrslu Mueller

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur varið síðustu vikum í að staðhæfa að skýrsla Robert Mueller, sérstaks rannsakanda Dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, hreinsi hann af sök. Hann virðist hættur því.

Trump tísti um óánægju með vitnisburð Muellers

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fór með rangt mál þegar hann sagði að rannsókn Roberts Mueller, sérstaks saksóknara, á Rússamálinu hafi leitt í ljós að forsetinn væri alsaklaus af ásökunum um að hann hafi hindrað framgang réttvísinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×