Innlent

Klippti loksins á borðann í Berufirði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra klippir á borðann í dag. Með honum á mynd er Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra klippir á borðann í dag. Með honum á mynd er Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar. Mynd/vegagerðin
Sigurður Ingi Jóhannsson klippti á borða í Berufirði í dag og opnaði þar með formlega nýjan vegarkafla sem styttir hringveginn um 3,6 kílómetra. Hinn nýi vegur markar jafnframt tímamót sem unnið hefur verið að í fjóra áratugi, þ.e. að koma bundnu slitlagi á allan Hringveginn.

Athöfnin fór fram sunnan við nýju brúna í Berufirði síðdegis í dag. Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar óskaði Austfirðingum og öllum Íslendingum til hamingju með áfangann. Sigurður Ingi fagnaði tímamótunum og sagði þau gæfuspor.

„Að athöfninni lokinni var haldið að Havaríi á Karlsstöðum á Berufjarðarströnd þar sem boðið var upp á veitingar í anda staðarhaldaranna þeirra Berglindar Häsler og Svavars Péturs Eysteinssonar sem betur er þekktur sem Prins Póló,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni. Þar afhjúpaði ráðherra einnig veglegan skjöld sem festur verður á grjót á áningastað í Berufirði til minningar um áfangann.

Frá framkvæmdum í Berufirði. Nú er búið að leggja bundið slitlag á veginn.Vísir/Vilhelm
Nýr kafli Hringvegar um Berufjarðarbotn er 4,9 kílómetra langur, þar af liggur um 1 kílómetri yfir sjó og um leirur. Vegurinn er 8 metra breiður með bundnu slitlagi. Ný brú í Berufjarðarbotni er steinsteypt, 50 meta löng og 10 metra breið.

Undirbúningur verksins hófst um árið 2007. Skiptar skoðanir voru um leiðir um Berufjarðarbotn sem seinkaði nokkuð undirbúningi verksins en verkið var boðið út í maí 2017. Lægsta tilboðið var frá Héraðsverki ehf. og MVA ehf. á Egilsstöðum. Framkvæmdir hófust 2017 og þeim átti að ljúka haustið 2018, en vegna veikra laga í sjó og þeirra viðbótarfyllinga sem þar urðu, náðist ekki að ljúka því fyrr en nú í sumar.

Nýi kaflinn um Berufjarðarbotn styttir Hringveginn um 3,6 kílómetra, sem nú er allur með bundnu slitlagi og er samtals 1.322 kílómetra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×