Erlent

Reagan kallaði Afríkubúa „apa“ í símtali við Nixon

Kjartan Kjartansson skrifar
Nixon (t.v.) og Reagan (t.h.) saman á kosningafundi. Sá fyrrnefndi var forseti til 1974 þegar hann sagði af sér vegna Watergate-hneykslisins. Reagan varð forseti árið 1981.
Nixon (t.v.) og Reagan (t.h.) saman á kosningafundi. Sá fyrrnefndi var forseti til 1974 þegar hann sagði af sér vegna Watergate-hneykslisins. Reagan varð forseti árið 1981. Vísir/Getty
Tveir bandarískir forsetar hlógu saman að því að fulltrúa Afríkuþjóða hjá Sameinuðu þjóðunum væru „apar“ í símtali þeirra á milli árið 1971. Á upptöku sem var nýlega gerð opinber heyrist Ronald Reagan, þá ríkisstjóri Kaliforníu, fara niðrandi orðum um Afríkubúa við Richard Nixon, þáverandi forseta.

Tilefni ummæla Reagan var að fulltrúar Tansaníu hjá Sameinuðu þjóðunum fögnuðu því með dansi að aðildarríkin samþykktu að viðurkenna Kína og reka Taívan úr samtökunum. Reagan studdi aðild Taívan.

Þáverandi ríkisstjórinn hringdi í Nixon daginn eftir til að lýsa óánægju sinni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

„Að sjá þessa…apa frá þessum Afríkulöndum. Fjandinn hafi þá, þeim líður ennþá illa að ganga í skóm!“ heyrist Reagan segja við Nixon á upptökunni. Forsetinn heyrist hlæja.

Sagnfræðiprófessor við New York-háskóla sem stýrði áður forsetabókasafni Nixon fann upptökuna en henni hafði verið haldið leyndri vegna persónuverndarsjónarmiða þrátt fyrir að aðrar upptökur hefðu verið birtar árið 2000 þegar Reagan var enn á lífi.

Nixon sagði eftir á við utanríkisráðherra sinn að Reagan hefði kallað Tansaníumennina „mannætur“ sem gengju ekki í skóm. Reagan hefði þrýst á hann að segja Bandaríkin frá Sameinuðu þjóðunum en símtalið hafi fljótt snúist að mestu um kvartanir hans um Tansaníumennina.

Reagan varð forseti Bandaríkjanna tíu árum eftir símtalið og gegndi embættinu til 1989. Hann lést árið 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×