Innlent

Komu innlyksa gönguhópi yfir Hrunaá

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Básum í Þórsmörk þangað sem göngufólkinu var komið. Myndin er úr safni.
Frá Básum í Þórsmörk þangað sem göngufólkinu var komið. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm
Björgunarsveitarmenn af Suðurlandi komu hópi göngufólks sem var innlyksa við Hrunaá farsællega í búðir sínar í Básum í Þórsmörk um klukkan níu í kvöld. Meiðsl konu sem var sögð slösuð á fæti reyndust minni en í fyrstu var talið.

Útkallið barst um klukkan sjö í kvöld. Hópurinn var þá sagður í sjálfheldu á Kattarhryggum, hluta af gönguleiðinni um Fimmvörðuháls.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir við Vísi að fólkið hafi verið á göngu um Kattahryggi að Hrunaá þar sem það lenti í ógöngum. Svo virðist sem það hafi komið vitlaust niður að ánni við klettanef og mikið vatn hafi verið í ánni.

Hópurinn hafi því þurft að snúa við upp bratta. Fólkið hafi ekki lagt í það eftir að konunni skrikaði fótur og hún kenndi sér meins. Davíð Már segir að meiðsl konunnar hafi ekki reynst eins mikil og útlit var fyrir í upphafi. Hún hafi orðið eftir með hópnum í Básum og ekki þurft á læknisaðstoð að halda.

„Þetta hafa mögulega bara verið yfirþyrmandi aðstæður að vera innlyksa þarna fyrir innan kletta við vatnsmikla jökulá. Mögulega voru aðstæður erfiðari en fólkið gerði ráð fyrir,“ segir Davíð Már.

Áin hafi verið það vatnsmikil að vatnið hafi náð upp á húdd á stórum bílum björgunarsveitarmannanna. Hrunaá er ein meginuppistaðan í Krossá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×