Innlent

Skattsvik námu 80 milljörðum

Jónas Már Torfason skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Starfshópur á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins áætlar að á árunum 2010 til 2013 hafi skattsvik numið um 80 milljörðum króna af árlegu tekjutapi ríkis og sveitarfélaga á tímabilinu. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Miðflokksins.

Í svarinu segir að eðli málsins samkvæmt sé erfitt að svara spurningum um starfsemi utan ramma laganna. Skattsvik séu af ýmsum toga og taki til mismunandi skatta, en að skattsvik sé ekki áætlað með reglulegum eða samræmdum hætti. Hins vegar hafi starfshópi verið falið það verkefni að greina umfang og áhrif skattundanskota og skattsvika.

Nefna má það að ríkissjóður skilaði á síðasta ári 80 milljarða króna afgangi og má setja það í samhengi við umfang skattsvikanna.

Eins er tæpt á því í svari ráðherra hvaða úrræði standi til boða við að bæta innheimtuárangur. Er þar nefnt sem dæmi kyrrsetning eigna skattaðila, það er einstaklinga eða fyrirtækja sem greiða skatt, sem sæta rannsókn skattyfirvalda, sem hefur gefist vel. Er þar nefnt að tollstjóri kyrrsetti eignir hjá skattaðilum fyrir rúma tvo milljarða króna á árinu 2017.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×