Innlent

Mikilvægt að skima fyrir kynsjúkdómum í fangelsum

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Til stendur að hefja skimanir fyrir kynsjúkdómum meðal fanga til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu kynsjúkdóma í fangelsum. Sóttvarnalæknir segir mikilvægt að fylgst sé með fólki í áhættuhópum. Unnið er að aðgerðaráætlun til að bregðast við útbreiðslu kynsjúkdóma á Íslandi.

Í nýjasta tölublaði Farsóttafrétta sem embætti Landlæknir gaf út í dag er vakin athygli á því að tíðni nokkurra kynsjúkdóma hefur aukist nokkuð á liðnum árum. Í fyrra greindust 105 með lekanda samanborið við um 38 fyrir fimm árum. Þá hefur tíðni sárasóttar aukist nokkuð.

Tíðni klamyndíu hefur hins vegar dregist lítillega saman og telur sóttvarnarlæknir að það megi mögulega rekja til þess að smokkasjálfsölum var nýverið komið upp í framhaldsskólum.

Unnið er nú að aðgerðaráætlun til að bregðast við útbreiðslu kynsjúkdóma. Sóttvarnalæknir telur bætt aðgengi að smokkum mikilvægan þátt.

„Við erum að horfa til þess að auka útbreðislu á smokkum jafnvel í grunnskólum. Það eru ekki allir sammála því en verkefnið er mjög brýnt held ég," segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.

Einnig þurfi að gæta að því að fólk í áhættuhópum eigi auðvelt aðgengi að smokkum. Þetta eigi til dæmis við innan fangelsa. Þá þurfi að tryggja skimanir hjá átthættuhópum.

„Það er í farvatninu að sóttvarnarlæknir muni útbúa leiðbeiningar varðandi skimanir á föngum. Bæði skimanir fyrir kynsjúkdómum og lifrabólgu C til þess að finna þessa sjúkdóma sem fyrst þannig að þeir breiðist ekki út," segir Þórólfur.

Annar liður í aðgerðaætluninni er aukin kynfræðsla.

„Það er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að allir þessi kynsjúkdómar eru til komnir vegna þess að fólk gætir ekki að sér í kynlífi, notar ekki smokka og svo framvegis. Þannig að aukin fræðsla er lykilatriði og við höfum nálgast skólana með það og við þurfum einnig að nálgast heilbrigðisstarfsfólk með það," segir Þórólfur.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×