Innlent

Krafðist þess að frumvarp um kynrænt sjálfræði yrði tekið af dagskrá

Atli Ísleifsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. vísir/vilhelm
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sleit fyrr í kvöld samtali sínu við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, þar sem þau reyndu að semja um þinglok. Það gerði forsætisráðherra þegar Sigmundur Davíð kom með nýja kröfu þess efnis að frumvarp ríkisstjórnarinnar um kynrænt sjálfræði yrði tekið af dagskrá þingsins.

Þetta herma heimildir fréttastofu. Katrín og Sigmundur Davíð ræddu saman í síma og höfðu náð saman um ýmis atriði, meðal annars varðandi breytingar á framkvæmd laga sem snúa að því að heimila innflutning á ófrosnu kjöti, þegar Sigmundur krafðist þess svo óvænt að frumvarp um kynrænt sjálfræði yrði tekið af dagskrá.

Markmið laganna er að tryggja rétt einstaklinga til þess að skilgreina sjálfir kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar.

Ríkisstjórnin og fjórir flokkar stjórnarandstöðunnar náðu fyrr í kvöld samkomulagi um hvaða mál yrðu tekin fyrir áður en þingi yrði slitið.

Miðflokkurinn stóð hins vegar utan samkomulagsins og hélt hann uppi sérstökum kröfum, meðal annars um þriðja orkupakkann.

Hvorki náðist í Sigmund Davíð né Katrínu við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir

Allir sáttir um þinglok nema Miðflokkurinn

Miðflokkurinn stendur einn utan samkomulags ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar um þinglok. Hann vill fresta afgreiðslu þriðja orkupakkans og frumvarps um innflutning á ófrosnu kjöti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×