Innlent

Slagsmál og slark en annars rólegt

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Til átaka kom við strætóbiðstöðina í Mjódd í gærkvöldi.
Til átaka kom við strætóbiðstöðina í Mjódd í gærkvöldi.
Um áttatíu mál bárust inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Þrátt fyrir málafjöldann segir lögreglan að nóttin hafi verið með rólegra móti, enda málin flest öll minniháttar eða „aðstoð við borgarann“ eins og hún kemst að orði.

Flest málin tengdust vímuefnaakstri og lítilsháttar umferðaróhöppum sem honum fylgdu. Þá lenti nokkur fjöldi ölvaðra í ýmis konar vandræðum, eins og karlmaður sem sagður var hafa sofið ölvunarsvefni á grasi í miðbænum. Við athugun lögreglunnar reyndist maðurinn þó ekki jafn drukkinn og af var látið heldur stóð upp og gekk sína leið.

Aðra sögu var að segja af drykkjurút í Kópavogi, hann gat ómögulega komist heim til sín óstuddur og fluttu lögreglumenn hann því heim á fjórða tímanum í nótt.

Þá var lögreglan kölluð til eftir að hópslagsmál brutust út við strætóbiðstöðina í Mjódd um kvöldmatarleytið í gær. Þegar lögreglumenn mættu í Mjódd voru slagsmálahundarnir þó allir á bak og burt og hefur ekkert meira til þeirra spurst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×