Erlent

Flugfreyja tókst á loft í ofsafenginni ókyrrð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Innihald vagnsins, sem flugfreyjan dró, þeyttist yfir farþega þegar ókyrrðin var hvað mest.
Innihald vagnsins, sem flugfreyjan dró, þeyttist yfir farþega þegar ókyrrðin var hvað mest. Skjáskot
Gríðarleg ókyrrð olli ofsahræðslu í flugvél ALK Airlines á leið frá Kosovo til Sviss á sunnudag.

Í myndbandi sem tekið er inni í vélina má heyra grátandi farþega fara með bænirnar sínar þær fimm mínútur sem vélin lék á reiðiskjálfi. Flugfreyja og vagninn sem hún dró skullu upp undir þak vélarinnar og dreifðu matvælum og heitu kaffi yfir næstu sætaraðir.

Tíu farþegar af 121 þurftu að leita á slysadeild eftir að vélin lenti loksins í Basel og þykir mildi að fleiri hafi ekki slasast, slíkur var hristingurinn. Sætaraðir losnuðu, sætisbelti rifnuðu og farþegar blóðguðust.

Konan sem fangaði myndbandið hér að neðan, Mirjeta Basha, segir að ókyrrðin hafi hafist um hálftíma eftir flugtak. Hún hafi ekki staðið yfir í nema 5 mínútur, sem voru þó gríðarlega lengi að líða. Eiginmaður hennar hafi verið einn þeirra sem þurfti að leita á slysadeild en hann fékk yfir sig rjúkandi heitt kaffið.

Basha hrósar starfsfólki flugfélagsins í hástert fyrir fagmennsku við þessar erfiðu aðstæður. Flugmenn og flugfreyjur hafi haldið ró sinni og reynt að stappa stálinu í skelkaða farþega.

Rétt er að vara flughrædda við myndbandi Basha, en nánar má fræðast um ókyrrð í háloftunum á Vísindavefnum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×