Fótbolti

Fyrrum Englandsmeistari með Arsenal lést í bílslysi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jose Antonio Reyes í leik með Arsenal
Jose Antonio Reyes í leik með Arsenal vísir/getty
Jose Antonio Reyes, fyrrum leikmaður Arsenal, er látinn 35 ára að aldri. Hann lést í bílslysi á Spáni.

Sevilla sagði frá andláti Reyes í dag, en hann hóf atvinnumannaferil sinn hjá spænska félaginu.



Reyes þreytti frumraun sína með Sevilla aðeins 16 ára gamall og varð yngsti leikmaðurinn í sögunni til þess að spila fyrir spænska félagið.

Spánverjinn fór til Arsenal í janúar 2004 og var hluti af sögulegu liði Arsenal sem vann Englandsmeistaratitilinn vorið 2004 án þess að tapa leik.

Reyes var hjá Arsenal til ársins 2007 en hann spilaði einnig fyrir Real Madrid, Atletico Madrid og Espanyol á ferlinum ásamt því að snúa aftur til Sevilla. Hann var á mála hjá B-deildar liði Extremadura.

Hann átti 21 landsleik fyrir að baki fyrir Spán.

Reyes vann Evrópudeildina fimm sinnum eftir að hann yfirgaf Arsenal, tvisvar með Atletico og þrisvar með Sevilla. Hann varð Spánarmeistari með Real Madrid vorið 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×