Innlent

Sextán ára á 120 með mömmu í framsætinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Ungt barn sat aftur í en mæðginin voru stöðvuð aftur síðar af lögreglu.
Ungt barn sat aftur í en mæðginin voru stöðvuð aftur síðar af lögreglu. Vísir/Vilhelm
Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði för 16 ára pilts sem ók á tæplega 120 kílómetra hraða skammt austan við Vík síðastliðinn laugardag. Þetta kemur fram í Facebook-færslu lögreglunnar en þar segir að móðir drengsins hafi setið í farþegasæti bílsins og ungt barn í aftursætinu.

Móðirin gaf þá skýringu að drengurinn væri í æfingaakstri en móðirin gat ekki framvísað neinum pappírum því til staðfestingar. Þá voru engar merkingar um æfingaakstur á bifreiðinni. Móðirin greiddi hraðasektina á staðnum og var henni gert að taka við akstri bifreiðarinnar. Um það bil 4 klukkustundum síðar var sama bifreið stöðvuð aftur skammt vestan við Vík og var 16 ára drengurinn aftur sestur við stýrið. Í þetta skiptið var móðirin kærð fyrir að vera ekki með ökuskírteini meðferðis, geta ekki framvísað gögnum sem sýna fram á æfingaakstur drengsins og fyrir að vera ekki með æfingaakstursmerki á bifreiðinni.

Annars er niðurstaðan sú að 74 voru kærðir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi í liðinni viku og 1217 ökumenn hafa verið kærðir fyrir hraðakstur það sem af er árinu.

Alls voru 41 ökumaður kærðir fyrir hraðakstur um helgina á varðsvæði Víkur og Kirkjubæjarklausturs.

Þeir sem hraðast óku voru á tæplega 140 km hraða.

Alls var posauppgjör hjá Vík og Klaustri samtals 2.250.000 kr fyrir utan þá sem ekki gátu greitt á staðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×