Erlent

Fréttamenn Reuters lausir úr fangelsi í Búrma

Kjartan Kjartansson skrifar
Wa Lone (t.v.) og Kyaw Soe Oo (t.h.) eftir að þeim var sleppt í dag. Þeir hlutu meðal annars bandarísku Pulitzer-verðlaunin fyrir umfjöllunina sem varð til þess að þeir voru handteknir.
Wa Lone (t.v.) og Kyaw Soe Oo (t.h.) eftir að þeim var sleppt í dag. Þeir hlutu meðal annars bandarísku Pulitzer-verðlaunin fyrir umfjöllunina sem varð til þess að þeir voru handteknir. Vísir/EPA
Tveir fréttamenn Reuters-fréttastofunnar sem höfðu dúsað í fangelsi í Búrma í meira en fimm hundruð daga voru á meðal á sjöunda þúsund fanga sem voru náðaðir og sleppt úr fangelsi í dag. Mennirnir tveir voru sakfelldir fyrir að brjóta gegn lögum um ríkisleyndarmál með umfjöllun sinni um morð á róhingjamúslimum í Búrma.

Wa Lone og Kyaw Soe Oo voru handteknir í desember árið 2017. Þeir höfðu þá unnið að rannsókn á morðum á tíu róhingjamúslimum, þar á meðal drengjum, í Rakhine-ríki í vesturhluta Búrma. Morðin voru hluti af herför hersins þar og voru framin af hermönnum og óbreyttum borgurum sem tilheyra meirihluta búddista í landinu. Á áttunda hundrað þúsunda róhingja flúðu til Bangladess undan ofsóknunum.

Fréttamennirnir voru sakfelldir og dæmdir í sjö ára fangelsi í desember. Handtökur þeirra og fangelsun vakti alþjóðlega athygli og var fordæmt af erindrekum og mannréttindasamtökum.

Þeim var báðum veitt forsetanáðun í dag en það er árviss hefð á nýársfagnaði í Búrma sem hefst 17. apríl. Alls var um 6.500 föngum um allt land sleppt.


Tengdar fréttir

Fordæma fangelsun blaðamanna

Samtök bæði lögfræðinga og blaðamanna í Mjanmar afhentu Win Myint, forseta ríkisins, bréf í gær þar sem lýst var áhyggjum af sakfellingu og fangelsun tveggja blaðamanna Reuters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×