Erlent

Kosið í Danmörku 5. júní

Kjartan Kjartansson skrifar
Skoðanakannanir benda til þess að ríkisstjórn Rasmussen forsætisráðherra gæti fallið í kosningunum í næsta mánuði.
Skoðanakannanir benda til þess að ríkisstjórn Rasmussen forsætisráðherra gæti fallið í kosningunum í næsta mánuði. Vísir/EPA
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, boðaði í dag til kosninga miðvikudaginn 5. júní. Skoðanakannanir benda til þess að miðhægriríkisstjórn hans gæti fallið og að miðvinstriblokk undir stjórn Sósíaldemókrataflokksins tæki við.

Danska ríkisútvarpið segir að vangaveltur hafi verið um að Rasmussen myndi boða til þingkosninga sama dag og kosið verður til Evrópuþings 26. maí. Með tilkynningu sinni í þingræðu í dag sé ljóst að í staðinn fái Danir fjögurra vikna langa kosningabaráttu sem sé langt á danskan mælikvarða. Kosið verður á stjórnarskrárdaginn, afmælishátið dönsku stjórnarskránna frá 1849 og 1953.

Meðaltal skoðanakannana sem dagblaðið Berlingske tekur saman bendir til þess að miðvinstriblokkin fengi 54,8% atkvæða, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Þá eygir nýr hægriöfgaflokkur sem vill banna íslamstrú og vísa hundruð þúsundum múslima úr landi möguleika á þingsæti.

Rasmussen sagði að þó að flokkarnir væru ekki sammála um allt þá ættu þeir margt sameiginlegt. Þeim hefur helst greint á um útgjöld til velferðarmála undanfarin misseri.

„Við erum sammála um að forgangsraða í þágu velferðar. Rammann í kringum stóran hluta lífs okkar, öryggisnetið fyrir þá sem falla. Það er er auðveldara að vera sammála um óskirnar en að greiða fyrir þær,“ sagði forsætisráðherrann á þingi í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×