Erlent

Samþykktu stefnur til að fá skýrslu Mueller afhenta

Kjartan Kjartansson skrifar
Nadler formaður hefur nú heimild til að gefa út stefnur til að knýja á um að fá Mueller-skýrsluna í hendur.
Nadler formaður hefur nú heimild til að gefa út stefnur til að knýja á um að fá Mueller-skýrsluna í hendur. Vísir/EPA
Demókratar í dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings samþykktu tillögu um að veita formanni nefndarinnar heimild til að gefa út stefnur til að krefja dómsmálaráðuneytið um óritskoðað eintak af skýrslu Roberts Mueller, sérstaka rannsakanda þess. Rannsóknin beindist að afskiptum Rússa af forsetakosningunum árið 2016 og meintu samráði framboðs Trump forseta við þá.

Jerry Nadler, formaður nefndarinnar, segist ekki ætla að gefa út stefnurnar strax heldur gefa William Barr, dómsmálaráðherranum, tækifæri til að skipta um skoðun og fá þinginu skýrsluna í heild sinni og öll skjöl sem hún byggir á, að sögn New York Times. Barr vinnur nú að því að ritskoða skýrsluna til að sía út hlutar hennar sem hann telur sér ekki heimilt að birta.

„Ef við náum ekki samkomulagi þá getum við ekki annað en gefið út stefnur fyrir þessi gögn,“ sagði Nadler.

Atkvæðagreiðslan í nefndinni fór eftir flokkslínum: demókratar greiddu atkvæði með en repúblikanar á móti. Nefndin samþykkti einnig stefnur á hendur fimm fyrrverandi starfsmanna Hvíta hússins sem demókratar telja að geti varpað ljósi á þann hluta skýrslu Mueller sem varðar meintar tilraunir Trump forseta til að hindra framgang réttvísinnar.

Barr gaf þinginu stutta samantekt á því sem hann taldi helstu niðurstöður Mueller á dögunum. Mueller hefði ekki sýnt fram á að framboð forsetans hafi lagt á ráðin með Rússum um að hafa áhrif á kosningarnar. Hann gæti hins vegar ekki hreinsað forsetann af sök um að hafa reynt að hindra framgang rannsóknarinnar jafnvel þó að hann mælti ekki með ákæru vegna þess.

Þá hefur dómsmálaráðherrann sagt dómsmálanefndinni að hann ætli sér að skila henni ritskoðaðri skýrslunni um miðjan þennan mánuð. Áður ætli hann að sigta út atriði sem leynd geti hvílt yfir, leynilegan framburð fyrir ákærudómstóli, upplýsingar um áframhaldandi rannsóknir og yfirlýsingar sem gengju gegn friðhelgi einkalífs og æru utanaðkomandi aðila sem hefðu litla aðild að málunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×