Skoðun

ÍSEXIT?

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Einokunarsinnar allra flokka hafa nú sameinast og berjast gegn innleiðingu 3. orkupakkans. Í fararbroddi eru gömlu valdakarlarnir sem færðu okkur einokunarkerfin í landbúnaði og sjávarútvegi og stóriðjustefnuna þar sem alþjóðlegir auðhringir fá orkuna úr fallvötnum okkar á gjafverði. Þetta eru ráðamennirnir sem tala um samfélagið okkar sem „ógeðslegt þjóðfélag“ þar sem allt snúist um völd og ekki séu til neinar hugsjónir. Þeim finnst það jafngilda fullveldisafsali þegar þeir ráða ekki öllu sjálfir. Þeir kalla það landráð að hugsanleg ágreiningsmál í hugsanlegum viðskiptum milli landa séu útkljáð af alþjóðlegum stofnunum á borð við Mannréttindadómstólinn og EFTA-dómstólinn sem dæmdi Íslendingum í hag í Icesave-málinu.

Álitamálin kringum 3. orkupakkann eru bundin því að einn góðan veðurdag komi til þess að íslensk orka verði hugsanlega einhvern tímann seld til útlanda gegnum hugsanlegan sæstreng – sem er með öllu óvíst. Og þyrfti sérstakt samþykki Alþingis til. Erfitt er hins vegar að átta sig á því hvers vegna viðskipti með orku eru svo miklu skelfilegri en til dæmis sala á lambakjöti: enginn talar um að við missum yfirráðin yfir íslenska lambakjötinu þegar við seljum það. Við verðum bara dauðfegin.

Öllu skiptir að íslenska þjóðin eigi sjálf auðlindir sínar og orkuveitur á borð við Landsvirkjun. Sé þetta tryggt í lögum – eins og nýja stjórnarskráin gerir: af hverju má þá ekki selja hæstbjóðanda (að uppfylltum grænum skilyrðum) þær afurðir sem þessar auðlindir veita?

Hér býr fleira undir en fölskvalaus ættjarðarást. Einangrunarsinnarnir sjá hér tækifæri til að stuðla að útgöngu Íslands úr EES, jafnvel EFTA. Stóri draumurinn er að skapa sérstakt ís-exit.

Í samskiptum okkar við umheiminn eigum við að minnsta kosti aldrei að hafa að leiðarljósi tröllasögur og heimóttarskap.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×