Viðskipti innlent

Hætti strax notkun á hættulegum barnahreiðrum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Barnahreiðrið sem hefur verið innkallað. Neytendastofa varar þó við að fleiri barnahreiður geti verið hættuleg.
Barnahreiðrið sem hefur verið innkallað. Neytendastofa varar þó við að fleiri barnahreiður geti verið hættuleg.
Barnavöruverslunin Fífa hefur innkallað barnahreiðrið Cuddle Nest Ergo frá Baby Dan vegna köfnunarhættu. Ástæðan er sögð vera sú að bil myndast á milli hringlagabotns hreiðursins og hliðanna. Fleiri barnahreiður kunna jafnframt að vera hættuleg.

„Ef barnið snýr höfðinu, getur það fest sig í bilinu á milli hliðar og botns sem getur leitt til köfnunar,“ segir til útskýringar á vef Neytendastofu.

Því hafi dreifingaraðilinn innkallað vöruna og sölu verið hætt. Eigendur umræddra barnahreiðra eru hvattir til að hætta notkun þeirra strax og hafa samband við Fífu.

„Jafnframt vill Neytendastofa benda á að þessi köfnunarhætta getur verið til staðar í svipuðum vörum. Því hvetjum við neytendur að athuga vel hvort það sé samsvarandi köfnunarhætta í barnahreiðri sem verið er að nota,“ segir á vef stofnunarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×