Viðskipti innlent

Treystu sér ekki til að halda áfram viðræðum vegna fjárhagsstöðu WOW

Samúel Karl Ólason, Sighvatur Jónsson og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Viðræðum félaganna er lokið.
Viðræðum félaganna er lokið. Vísir/Vilhelm
Viðræðum Icelandair og WOW air, er sneru að sameiningu eða kaupum fyrrnefnda félagsins á því seinna, er lokið.

Samkvæmt frétt Kjarnans um málið funda forsvarsmenn félaganna nú með stjórnvöldum þar sem farið er yfir stöðu mála og næstu skref. Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar kvaðst þó ekki geta veitt upplýsingar um málið þegar fréttastofa leitaði eftir því. 

Hér má lesa stutta tilkynningu Icelandair:

„Icelandair Group hefur ákveðið að ekki muni verða af hugsanlegri aðkomu félagsins að rekstri flugfélagsins WOW air sem tilkynnt var um hinn 20. mars sl. Þar með hefur viðræðum á milli aðila verið slitið.“

Hvorki hefur náðst í Skúla Mogensen, forstjóra og eina eiganda WOW, né Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa félagsins, vegna málsins.

Viðræðurnar strönduðu á fjárhagsstöðu WOW

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að rekstur og fjárhagsstaða WOW air væri með þeim hætti að forsvarmenn Icelandair treystu sér ekki til að halda áfram með málið.

„Eftir mikla vinnu og skoðun undanfarna daga, þá er niðurstaða okkar sú að rekstur og fjárhagsstaða WOW air er með þeim hætti að við treystum okkur ekki til þess að halda áfram með málið og ákváðum að slíta viðræðunum,“ segir Bogi.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.Vísir/Arnar
Bogi segir að þegar viðræður á milli félaganna hófust fyrst síðasta haust hafi ákveðnar forsendur verið á borðinu og skuldastaðan með ákveðnum hætti. Nú hafi komið fram upplýsingar um að skilmálar skuldabréfa og annarra skulda WOW air gætu verið breyttar frá því síðasta haust. Því hafi verið ákveðið að skoða málið aftur á síðustu vikum.

Hann segir starfsmenn Icelandair telja að hægt verði að leysa þann vanda sem skapast hefur með kyrrsetningu Boeing 737 MAX flugvélanna með öðrum hætti en að notast við flugvélar sem WOW air er með á leigu.

„Það er spurning hvenær MAX-in kemur í rekstur. Ef það verður frekari töf á því getum við leigt aðrar vélar tímabundið. Við erum að skoða ýmsar lausnir hvað það varðar.“

Sama hvað gerist, segir Bogi framtíðina bjarta

Bogi segir að stjórnvöld hafi verið upplýst um gang mála í viðræðunum. Aðspurður um hvað gerist nú segir hann: „Við þurfum að einbeita okkur að okkar rekstri og styrkja hann.“

Hann segist vonast til þess að rekstur WOW air gangi áfram.

„Það er ekki gott fyrir íslenskt þjóðfélag ef stórt félag fer. WOW air er mikilvægt fyrir íslenska ferðaþjónustu en það er ekki í okkar höndum hvað gerist þar.“

Varðandi það hvort Icelandair geti fyllt upp í það tómarúm sem við brotthvarf WOW air af flugmarkaði bendir Bogi á að í sumar verði 26 flugfélög að fljúga til Íslands. Um 15 flugfélög fljúgi allan ársins hring og tíu flugfélög fljúgi til Íslands í dag.

„Við getum bætt í ef á þarf að halda og við sjáum tækifæri til þess, og önnur flugfélög líka. Þannig að sama hvað gerist úr þessu, þá er framtíð íslenskrar ferðaþjónustu björt og langtímahorfurnar mjög góðar.“



Hvarf WOW af flugmarkaði gæti haft víðtækar afleiðingar

Nýleg skýrsla um áhrif brottfalls WOW af flugmarkaði, sem félagið lét ráðgjafafyrirtækið Reykjavík Economics vinna, leiðir líkur að því að hverfi félagið af markaði gæti það leitt til samdráttar á landsframleiðslu um allt að 2,7 prósent. Þúsundir myndu missa vinnuna og gengi krónunnar gæti veikst í kjölfarið.

Síðasta fimmtudag var tilkynnt um viðræðuslit milli WOW og bandaríska fjárfestingasjóðsins Indigo Partners um mögulega fjárfestingu sjóðsins í félaginu. Á sama tíma var tilkynnt að Icelandair Group og WOW hefðu hafið viðræður sín á milli að nýju en félögin höfðu áður átt í viðræðum um mögulega aðkomu Icelandair að rekstri WOW í nóvember síðastliðnum.

Fyrrverandi forstjóri Icelandair Group, Jón Karl Ólafsson, hafði áður sagt að hann hefði litla sem enga trú á því að Icelandair kæmi til með að fjárfesta í WOW þar sem Airbus vélar síðarnefnda félagsins hentuðu einfaldlega ekki rekstri Icelandair.






Tengdar fréttir

Hefur ekki trú á því að Icelandair kaupi WOW air

Jón Karl Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Isavia og fyrrverandi forstjóri Icelandair, hefur ekki trú á því að þær viðræður sem nú standa yfir á milli Icelandair og WOW air endi með því að Icelandair kaupi WOW air.

737 MAX uppfærslan sögð tilbúin

Boeing er sagt vera búið að leggja lokahönd á uppfærslu á hugbúnaðaruppfærslu á flugstjórnarkerfi 737 MAX flugvélanna

Stjórnvöld reyna að auðvelda samruna flugfélaganna

Fjármálaráðherra segir stöðu flugmála í landinu mjög alvarlega sem geti smitað út frá sér með auknu atvinnuleysi og minni hagvexti. Stjórnvöld muni gera sitt til að auðvelda samruna flugfélaganna, til að mynda varðandi uppbyggingu í Keflavík og gjaldtöku á ferðaþjónustuna en ekki leggja til fjármuni í reksturinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×