Sport

Conor McGregor hættur í MMA

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Conor varð tvöfaldur heimsmeistari í UFC í nóvember 2016.
Conor varð tvöfaldur heimsmeistari í UFC í nóvember 2016. vísir/getty
Conor McGregor mun ekki ganga inn í búrið og berjast aftur, í það minnsta ekki fyrir UFC eða önnur MMA-sambönd. Þetta tilkynnti hann í dag.

McGregor sagði frá því á Twitter síðu sinni í dag að hann væri hættur í MMA, en hann hefur verið eitt stærsta nafnið í íþróttinni síðustu ár.

„Ég hef ákveðið að hætta í íþróttinni sem er formlega þekkt sem blandaðar bardagaíþróttir í dag. Ég óska öllum mínu gömlu félögum velfarnaðar í framtíðinni,“ sagði Conor á Twitter.

Hinn þrítugi McGregor varð tvöfaldur heimsmeistari í UFC en hefur lítið barist síðustu ár.



Árið 2016 sagðist hann ætla að hætta, sú tilkynning kom eftir fyrsta tap hans í UFC sem kom gegn Nate Diaz. Hann snéri hins vegar aftur þremur mánuðum seinna til þess að mæta Diaz aftur.

Hann tók sér tveggja ára hlé frá UFC áður en hann sneri aftur í nóvember síðastliðnum, þá barðist hann við Khabib Nurmagomedov og tapaði.

Eftir þann bardaga brutust út átök á milli Khabib og Conor og var Conor bannaður frá keppni í sex mánuði. Það bann er því enn í gildi.

Á meðan að hléi Conor frá UFC stóð snéri hann sér að hnefaleikum og mætti Floyd Mayweather í stórum bardaga í Las Vegas. Mayweather hafði betur.

Hvort McGregor snúi sér að öðrum bardagalistum, eða láti sér duga að sitja á ströndinni, á eftir að koma í ljós. En í það minnsta í bili segist hann vera hættur.


Tengdar fréttir

Conor McGregor handtekinn

Bardagakappinn og Íslandsvinurinn kom sér enn á ný í vandræði í Miami í Bandaríkjunum í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×