Viðskipti innlent

Icelandair vel í stakk búið þrátt fyrir MAX-vandræði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir flugfélagið ágætlega í stakk búið til að aðstoða þá farþega sem höfðu fyrirhugað að ferðast með WOW air. Hugur Icelandair sé hjá starfsmönnum WOW á þessum sorgardegi í flugsögu Íslands.

Bogi, sem ræddi við Heimi Má Pétursson í aukafréttatíma Stöðvar 2, segir að töluverður fjöldi fólks hafi sett sig í samband við Icelandair eftir að ljóst var að WOW hefði hætt starfsemi. Icelandair hafi virkjað viðbragðsáætlun sína, sem meðal annars felst í því að bjóða strandaglópum upp á sérfargjöld og að flytja starfsfólk WOW aftur til síns heima - því að kostnaðarlausu.

Sjá einnig: Icelandair endurskoðar pöntun ef kyrrsetning dregst á langinn



Enn er uppi óvissa um hvort Icelandair getur reitt sig á Boeing 737 MAX-vélarnar í áætlunarflugi sínu á næstu mánuðum. Félagið hefur notast við þrjár slíkar vélar en hafði fyrirhugað að hafa tekið níu MAX-þotur í notkun fyrir sumarið. Þau áform eru þó í lausu lofti eftir víðtækar kyrrsetningu á vélunum í kjölfar tveggja mannskæðra slysa á síðustu mánuðum.

Bogi segir að fari svo að kyrrsetningin dragist á langinn verði Icelandair vitaskuld að gera viðeigandi breytingar á leiðakerfi sínu. Hann búist þó við því að til þess muni ekki koma, Boeing hafi gengið frá hugbúnaðaruppfærslu sem vonir standa til að verði til þess að vinda ofan af kyrrsetningunni.


Tengdar fréttir

Icelandair endurskoðar pöntun ef kyrrsetning dregst á langinn

Icelandair á von á sex nýjum Boeing 737 MAX 8 vélum á þessu ári. Forráðamenn félagsins segjast vera að skoða til hvaða ráða verði gripið dragist kyrrsetning vélanna á langinn. Raskanir á flugi má rekja til kyrrsetningar þriggja véla félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×