Innlent

„Taki poka sinn og hypji sig strax í burtu“

Birgir Olgeirsson skrifar
Sigríður Á Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á Andersen dómsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Boðað hefur verið til mótmæla þar sem krafist er að Sigríður Andersen sýni ábyrgð og segi af sér sem dómsmálaráðherra. Ætla mótmælendur að koma saman á Austurvelli fyrir framan Alþingishúsið klukkan hálf fimm í dag.

Mannréttindadómstóll dæmdi í dag að skipan dómara í Landsrétti bryti gegn sjöttu grein Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem kveðið er á um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.

Telur Mannréttindadómstólinn Sigríði hafa augljóslega hunsað reglur sem giltu um skipan dómara. Er Alþingi einnig talið hafa brugðist í því hvernig það samþykkti skipan dómara.

Þeir sem standa að baki þessum mótmælum eru Gulstakkar, ungir jafnaðarmenn, ungir Píratar og samtökin Jæja.

Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, er einn þeirra sem kemur að skipulagningu þessara mótmæla.

„Það sem við förum fram á er að hún sýni ábyrgð, taki poka sinn og hypji sig strax í burtu,“ segir Daníel í samtali við Vísi.

Þetta verða ekki einu mótmælin á Austurvelli í dag því hálftíma eftir að mótmælin gegn Sigríði hefjast, munu mótmælendur taka sér stöðu fyrir framan Alþingi þar sem meðferð flóttamanna í hælisferli á Íslandi verður mótmælt.

Er þess krafist að ekki verði farið í fleiri brottvísanir á hælisleitendum, þeir fái allir efnismeðferð og ekki verði horft til Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá er þess krafist að hælisleitendum verði tryggður réttur til að vinna, þeir fái jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og að einangruðum flóttamannabúðum á Ásbrú verði lokað.

Meðferð hælisleitenda var einnig mótmælt á Austurvelli í gær þar sem til átak kom á milli lögreglu og mótmælenda.


Tengdar fréttir

Sigríður ætlar ekki að segja af sér

Sigríður Á Andersen, dómsmálaráðherra, telur niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu ekki vera tilefni til þess að segja af sér. Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×