Innlent

Forystufólk flokksins líklegt

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Líklegast þykir að dómsmálin fari til forystu flokksins.
Líklegast þykir að dómsmálin fari til forystu flokksins. Fréttablaðið/anton brink

Af þeim sem líklegastir þykja til að fylla skarð Sigríðar Andersen í dómsmálaráðuneytinu þykir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir líklegust. Verði sú raunin gæti Bjarni Benediktsson þurft að setja annan ráðherra í hennar stað í ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og kemur Haraldur Benediktsson þar sterklega til greina.

Sú hugmynd hefur hins vegar einnig verið rædd að Þórdís víki ekki úr því ráðherraembætti sem hún gegnir heldur muni aðrir sitjandi ráðherrar létta undir með henni og taka jafnvel að sér einhverja þeirra málaflokka sem hún fer með en um nokkra stóra málaflokka er að ræða, til að mynda orkumálin, þar sem þriðji orkupakkinn er fyrirferðarmestur.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur líka verið sterklega orðuð við dómsmálin, en þrátt fyrir ungan aldur þykir hún hafa staðið sig vel; bæði í formennsku þingnefnda og í forystuhlutverki sínu í Sjálfstæðisflokknum.

Þá gæti Bjarni einnig ákveðið að taka dómsmálin sjálfur tímabundið á meðan mál eru að skýrast varðandi nýfallinn dóm Mannréttindadómstólsins. Hann er hins vegar sjálfur með þung mál á sinni könnu; ekki síst meðan kjaraviðræður eru ekki til lykta leiddar.

Val Bjarna stendur því milli þess að gera fyrst bráðabirgðabreytingu á ráðherraliði sínu og bíða með varanlegri breytingu eða taka nýjan mann inn í ríkisstjórn. Margir eru um hituna í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og ljóst að Bjarni getur ekki gert öllum til geðs.

Þótt Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi lagt áherslu á jöfn kynjahlutföll í ríkisstjórninni, herma heimildir blaðsins að Bjarna hafi ekki verið settir neinir úrslitakostir í þeim efnum.

Þótt Sigríður Andersen, fráfarandi dómsmálaráðherra, hafi komist þannig að orði á blaðamannafundi í gær að hún hygðist stíga tímabundið til hliðar til að skapa vinnufrið um eftirmál dóms Mannréttindadómstólsins, er alls óvíst að hún eigi afturkvæmt í ríkisstjórn. Heimildir Fréttablaðsins herma að henni hafi verið nauðugur þessi eini kostur vegna þrýstings frá ráðherrum og þingmönnum Vinstri grænna. Hafi hún átt þann kost að stíga til hliðar eða hætta á að fá á sig vantraust frá Alþingi. Sjálfstæðismönnum hafi verið gert ljóst að engu yrði að treysta um atkvæði þingflokks VG í atkvæðagreiðslu um vantraust.

Töluverð andstaða mun einnig vera við endurkomu Sigríðar í ríkisstjórn fyrr en í fyrsta lagi að gengnum nýjum dómi frá Strassborg. Bið eftir honum getur tekið marga mánuði eða ár.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×