Innlent

Grípa til rýminga þegar strompurinn verður sprengdur í tvennu lagi

Birgir Olgeirsson skrifar
Strompurinn á Akranesi sést hér fyrir miðri mynd.
Strompurinn á Akranesi sést hér fyrir miðri mynd. FBL/GVA
Sementsstrompurinn á Akranesi verður felldur í næstu viku ef áætlanir bæjaryfirvalda á Akranesi ganga eftir. Greint er frá þessu á vef Skessuhorns en þar segir að bæjaryfirvöld á Akranesi vinni að gerð áætlunar um rýmingu ásamt lögreglu og hvernig girða þurfi svæðið af þegar strompurinn verður felldur.

Er vonast til að hægt verði að fella strompinn næstkomandi fimmtudag en á vef Skessuhorns kemur fram að veðrið muni hafa áhrif á endanlega dagsetningu.

Verður strompurinn sprengdur í tvennu lagi, annars vegar þegar sprengt verður í um 25 metra hæð og hins vegar þegar sprengt verður við rætur strompsins fjórum sekúndum síðar. Var brotið úr strompinum í síðustu viku við rætur þar sem sprengjuhleðslu verður komið fyrir.

Íbúar Akraness tóku þátt í íbúakosningu um framtíð strompsins en þar vildu rúm 94 prósent hann í burtu. Kusu 1.023 strompinn burt en 63 vildu halda honum.

Mannvit hafði birt úttekt á viðhaldskostnaði ef að strompurinn fengi að standa. Hefði upphafskostnaðurinn verið 30 milljónir króna en síðan tvær til þrjár milljónir króna á nokkurra ára fresti.

Um er að ræða hluta af niðurrifi á Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi, sem reist var á árunum 1956 til 1958, en fyrirhugað er að reisa 356 íbúðir á Sementsreitnum ásamt verslunar- og þjónustuhúsnæði og hóteli við höfnina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×