Skoðun

Gas! Gas!

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Í eina tíð var þetta samfélag með þá reisn að fannhvítir trukkabílstjórar upphófu mótmæli við hjartarætur íslensks samfélags, bensínstöðvarnar. En kölluðu um leið yfir sig vígbúna lögreglu sem þurfti að horfast Ray-Ban í Ray-Ban á við Stulla og félaga sem ekki höfðu lengur efni á að kaupa olíu á yfirveðsetta bíla sem keyptir höfðu verið sólgleraugnalaust í bjartsýniskasti því þörf var á því að grunnstoðir efnahagslífsins, fjárfestingarfyrirtækin, gætu vélað síðustu krónurnar út úr vel meinandi fjölskyldum sem ætluðu sér aldrei annað en „að vera með í lífinu“.

Þá var lögreglan töff og gargaði „Gas! Gas!“ og úðaði gasi gengdarlaust yfir atvinnubílstjóra enda vígvöllurinn áfyllingarstöð. Sumir vilja meina að þessi átök hafi markað upphaf búsáhaldaóþekktarinnar sem síðar leiddi til þess að Geir Haarde varð sendiherra sem svo opinberaði að Steingrímur J. væri misskilningur sem endaði með því að Bjarna Ben var treyst fyrir peningum landsmanna. En nú er öldin önnur. Lögreglan vanbúin og hefur ekki annað en piparsprey og gólar vanmáttug á framandi fólk „Krydd! Krydd!“ en þykjast þó miklir menn og handtaka pappaspjöld því að mögulegt er að kveikja í þeim, séu menn með eldspýtur og ef menn eru í skjóli, og ætli menn að kveikja í þeim. Sem þó er alls ósannað – en hverju skiptir það í réttarríki þar sem dómstólarnir eru ekki annað en lögleg en illa hirt tjaldstæði fyrir flokksgæðinga.

Piparúði! Því skríkir ekki löggan bara: „Eigum við að henda í ykkur Drakúlabrjóstsykri?“ Það myndi hæfa tilefninu, meintu uppþoti. Mótmælum fólks sem fór niður á Austurvöll vegna þess að það langar „að vera með í lífinu“.




Skoðun

Sjá meira


×