Skoðun

Engin sátt án sann­mælis

Kristinn Karl Brynjarsson skrifar

Það hefði auðvitað verið verulega til bóta að stjórnvöld hefðu lagst í smá greiningarvinnu vegna áforma sinna um tvöföldun veiðigjalda. Þó ekki væri nema til þess að stjórnvöld sjálf, hefðu það þokkalega á hreinu hvað þau básúna yfir landið og miðin um hagstærðir í greininni.

Eitt dæmi af ótal mörgum um glæpsamlega galnar rangfærslur stjórnvalda, er að hæstvirtur atvinnuráðherra gasar blygðunarlaust yfir lýðinn í Kastljósi Ríkissjónvarpsins að arðsemi í sjávarútvegi sé tvöfalt meiri en í öðrum atvinnugreinum. Stjórnarþingmenn og meðhlauparar þeirra, taka svo undir söng ráðherrans, í nafni sanngirni og réttlætis, um að arðsemi í sjávarútvegi sé tvöfalt meiri en í öðrum atvinnugreinum.

Ráðherrann og stjórnarliðar almennt, hefðu nú svosem ekki þurft að leggjast í þunga greiningarvinnu til þess að komast að því að fullyrðingin (bullyrðingin) um arðsemina, væri kolröng. Nóg hefði verið að heimsækja heimasíðu Hagstofunar til þess að glöggva sig á því rétta. Eins og myndin hér að neðan sýnir.

Frasar eins og, "sátt um sjávarútveginn" og "sanngirni", eru bara hjóm eitt þegar undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar fær ekki að njóta sannmælis í áróðursherferð stjórnvalda. En kannski stóð það líka aldrei til að greinin fengi að njóta sannmælis. Enda blákaldar staðreyndir sjaldan þeim hliðhollar, sem viljandi halla réttu máli.

Höfundur er formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×