Erlent

Fær að höfða mál fyrir hönd fósturs sem var eytt

Kjartan Kjartansson skrifar
Andstæðingur þungunarrofs mótmælir við Hæstarétt Bandaríkjanna. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Andstæðingur þungunarrofs mótmælir við Hæstarétt Bandaríkjanna. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Getty
Dómari í Alabama hefur fallist á að fóstur sem var eytt hafi lagaleg réttindi og að karlmaður geti höfðað mál fyrir hönd þess. Maðurinn ætlar að stefna heilsugæslustöð þar sem fyrrverandi kærasta hans gekkst undir þungunarrof og framleiðanda pillunnar sem henni var gefin. Úrskurðurinn byggir á umdeildum lögum í Alabama um réttindi „ófæddra barna“.

Þáverandi kærasta Ryans Magers lét framkvæma þungunarrof í sjöttu viku þrátt fyrir að hann hefði gengið hart að henni að gera það ekki árið 2017. Hann hefur nú fengið dómsúrskurð um að hann geti nefnt fóstrið sem meðstefnanda í stefnu vegna „dauðsfalls“, að sögn Washington Post.

Stúlkan var sextán ára gömul þegar hún varð ólétt, að sögn föður hennar. Magers hafi verið 19 ára og atvinnulaus þegar parið komst að því að hún væri þunguð. Faðir stúlkunnar segir að fjölskyldan sé „eyðilögð“ vegna málsóknarinnar.

Grundvöllur úrskurðarins er viðauki við stjórnarskrá Alabama sem kjósendur samþykktu í fyrra. Með honum var fóstrum veitt lagaleg réttindi.

Baráttuhópar fyrir rétti kvenna til þungunarrofs segja að úrskurðurinn nú setji hættulegt fordæmi þar sem hugmyndir um að veita fósturvísum og fóstrum réttindi á við einstaklinga hafi skotið upp kollinum víða. Dæmi eru um að konur sem neyttu áfengis eða fíkniefna á meðgöngu hafi verið ákærðar fyrir barnamisnotkun þegar þær misstu fóstur.

Ilyse Hogue, forseti NARAL, samtaka sem styðja réttinn á þungunarrofi, segir að málshöfðunin í Alabama þýði að réttindi konu séu í þriðja sæti á eftir réttindum karlmannsins sem þungaði þær og fóstursins sem þær eyða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×