Innlent

Ætla að taka á skiltafargani í Grinda­vík

Birgir Olgeirsson skrifar
Bæjarstjórinn segir marga góða veitingastaði í bænum sem sjálfsagt sé að vekja athygli á, en það þurfi að gerast skipulega.
Bæjarstjórinn segir marga góða veitingastaði í bænum sem sjálfsagt sé að vekja athygli á, en það þurfi að gerast skipulega. Aðsend
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, segir málið komið inn á borð bæjaryfirvalda og því hafi verið vísað til skipulagssviðs sveitarfélagsins.

„Það stendur til að fara yfir þessi mál og kynna þetta fyrir fastanefndum bæjarins þannig að það verði komið á þetta svona góðu skikki í samráði við veitingaaðila.

Í byggingarreglugerð er að finna kröfur um auglýsingaskilti. Þar segir að skilti sem eru yfir 1,5 fermetrum að flatarmáli séu byggingarleyfisskyld, þó ekki tímabundin skilti undir 2,0 fermetrum að stærð sem ætlað er að standa skemur en tvær vikur. Umferðarskilti og þess háttar eru ekki byggingarleyfisskyld. Tryggja skal við gerð og uppsetningu skilta að þau valdi ekki hættu.

„Það eru landslög og reglur sem gilda og ef menn fara eftir því á þetta ekki að vera vandamál. En við ætlum samt að skerpa á þessum málum þannig að þetta verði ekki með svona óskipulegum hætti,“ segir Fannar.

Hann segir Grindavíkurbæ búa að því að vera með marga góða veitingastaði. „Og menn eru að vekja athygli ferðamanna á því hvar þeir eru staðsettir því veitingastaðirnir blasa ekki við þegar komið er inn í bæinn. Það er nú fjarri því að það sé ekki þverfótað fyrir skiltum, en þetta er ekki nógu skipulagt,“ segir Fannar.

Bæjaryfirvöldum bíður því nú það verkefni að tryggja að staðirnir geti auglýst sig með skiltum á réttum stöðum, á smekklegan hátt og með tilheyrandi leyfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×