Innlent

Icelandair fær fyrstu MAX 9 þotuna frá Boeing

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá flugtaki fyrstu Boeing 737 MAX 9 þotu Icelandair í Seattle.
Frá flugtaki fyrstu Boeing 737 MAX 9 þotu Icelandair í Seattle. Mynd/Icelandair.
Fyrsta Boeing 737 MAX 9 þota Icelandair er komin úr verksmiðjunum í Seattle í Bandaríkjunum og farin í sitt fyrsta flug og fær félagið hana afhenta á morgun, samkvæmt upplýsingum Ásdísar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair. Myndir frá reynsluflugi þotunnar voru sýndar í fréttum Stöðvar 2.

MAX 9 þotan er 2,64 metrum lengri en MAX 8-gerðin og verður með 178 sæti hjá Icelandair, 18 sætum fleira en MAX 8, en Icelandair fékk þrjár slíkar í fyrra. Félagið á von á sex nýjum MAX þotum núna á vormánuðum og verður þá komið með samtals níu slíkar í flotann, af þeim sextán sem það hefur keypt frá Boeing.

Þotan hefur fengið einkennisstafina TF-ICA.Mynd/Icelandair.
MAX 9 þotan er væntanleg til Íslands á fimmtudag og hefur hún fengið einkennisstafina TF-ICA. Starfsmenn Icelandair munu sjálfir innrétta vélina í flugskýli félagsins á Keflavíkurflugvelli og má búast við að standsetning taki nokkrar vikur áður en hún kemst í rekstur. 

Icelandair hyggst nota MAX 9 þotuna á helstu Evrópuleiðum og á styttri Ameríkuleiðum, samkvæmt vefsíðunni Routes Online. Þar má sjá að búið er að setja hana í flug á allar höfuðborgir Norðurlandanna, en einnig á staði eins og London Gatwick, Amsterdam, Berlín, Brussel, París og Frankfurt og vestanhafs á New York, Washington, Chicago, Minneapolis, Toronto og Montreal.

Hjólin tekin upp í reynsluflugi. Flugvélin er væntanleg til Íslands á fimmtudag.Mynd/Icelandair.
Sex ár eru frá því Icelandair tilkynnti um þessi stærstu flugvélakaup Íslandssögunnar. Samkvæmt verðlista Boeing kostar ein MAX 9 þota um 15,4 milljarða króna en MAX 8 kostar um 14,5 milljarða króna. Í slíkum samningum tíðkast þó verulegir afslættir en kaupverð véla Icelandair er trúnaðarmál.

Icelandair bætir við sex nýjum Boeing 737 þotum í reksturinn í vor og verður þá komið með níu þotur af MAX-línunni.Mynd/Icelandair.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2.


Tengdar fréttir

Þotukaupin réðust að morgni eftir næturfund

Airbus-verksmiðjurnar voru hársbreidd frá því að ná samningunum um endurnýjun flugflota Icelandair og voru inni í myndinni allt fram á miðvikudagsmorgun þegar næturlöngum samningafundum lauk með því að Icelandair-menn völdu Boeing. Það var í hádeginu í gær sem ráðamenn Icelandair kynntu þá ákvörðun sína að velja Boeing 737 MAX sem framtíðarvél félagsins, með því að panta tólf slíkar þotur og festa sér kauprétt að öðrum tólf til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×