Viðskipti erlent

Drónarnir á Gatwick kostuðu EasyJet milljarða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vélar Easyjet á Gatwick-flugvelli.
Vélar Easyjet á Gatwick-flugvelli. Getty/Education Images
Lággjaldaflugfélagið EasyJet áætlar að drónarnir, sem trufluðu flugumferð um Gatwick-flugvöll í desember, hafi kostað flugfélagið um 15 milljónir punda, rúmlega 2,3 milljarða króna.

Haft er eftir framkvæmdastjóra félagsins, Johan Lundgren, á vef breska ríkisútvarpsins að kostnaðurinn sé tilkominn vegna tveggja þátta; annars vegar bóta til farþega og tekjutaps vegna flugferða sem felldar voru niður. Bótagreiðslunar námu alls um 10 milljónum punda en kostnaðurinn vegna flugröskunarinnar 5 milljónum.

Ríflega 82 þúsund farþegar og rúmlega 400 flugferðir Easyjet fengu að kenna á drónafluginu yfir Gatwick-flugvelli í Lundúnum. Drónarnir stöðvuðu umferð um völlinn í alls 36 klukkustundir og um þúsund flugferðir voru alls felldar niður. Par á miðjum aldri var handtekið í tengslum við rannsóknina en þeim var síðar sleppt. Yfirvöld á Gatwick-flugvelli eru sögð hafa eytt fimm milljónum punda í nýjan tækjabúnað og tækni til að koma í veg fyrir frekari drónatruflanir.

Þrátt fyrir hrakfarir EasyJet á Gatwick segir flugfélagið að það hafi byrjað nýtt rekstrarár af krafti og það sé vel í stakk búið til að takast á við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Í því samhengi nefnir EasyJet að farþegum félagsins hafi fjölgað um 15 prósent á síðustu þremur mánuðum síðasta árs, þegar þeir voru um 21,6 milljón talsins.

Þá er einnig ljóst að drónauppákoman hefur ekki orðið til þess að EasyJet missti trú á Gatwick-flugvelli, en eins og kom fram í lok desember var flugfélagið annað tveggja sem keypti flugtíma WOW air á vellinum.


Tengdar fréttir

Grunaðir drónaflugmenn leystir úr haldi

Parið sem handtekið var grunuð um að bera ábyrgð á drónaflugi yfir Gatwick var sleppt úr haldi í dag. Lögregla telur þau ekki bera sök.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×