Erlent

Móðir orðlaus að mynd um morðið á syni hennar hafi verið tilnefnd til Óskars

Birgir Olgeirsson skrifar
Jon Venables og Robert Thompson voru dæmdir fyrir morðið á hinum tveggja ára James Bulger.
Jon Venables og Robert Thompson voru dæmdir fyrir morðið á hinum tveggja ára James Bulger. Vísir/Getty

Móðir James Bulger, sem var tveggja ára gamall þegar hann var myrtur árið 1993, hefur gagnrýnt harðlega að leikin mynd um málið hafi verið tilnefnd til Óskarsverðlauna. 

Myndin heitir Detainment og er tilnefnd í flokki stuttmynda. Hún er þrjátíu mínútur að lengd og styðst við yfirheyrslu lögreglu yfir drengjunum tveimur sem voru tíu ára gamlir þegar þeir myrtu Bulger í Merseyside á Englandi. 



„Ég á erfitt með að koma í orð hversu misboðið mér er að þessi svokallaða mynd hafi verið gerð og tilnefnd til Óskarsverðlauna,“ sagði Denise Fergus á Twitter.

Leikstjóri myndarinnar er Írinn Vincent Lambe sem hefur beðið Fergus afsökunar á að hafa ekki tilkynnt henni nógu snemma að hann ætlaði að gera myndina og beðið hana afsökunar á því hversu slæm áhrif gerð þessarar myndar hefur haft á sálarlíf hennar. 

Rúmlega 90 þúsund manns lögðu nafn sitt við áskorun þar sem Óskarsakademían var hvött til að dæma myndina úr leik. Ekki var orðið við þeirri áskorun og myndin tilnefnd til verðlauna.

Eftir að tilkynnt var um tilnefninguna óskaði forseti Írlands, Michael D. Higgins, írskum kvikmyndagerðarmönnunum sem voru áberandi í tilnefningum til hamingju. Þar á meðal þeim sem komu að myndunum The FavouriteLate Afternoon og Detainment.

Fergus sagði í viðtali í síðasta mánuði að hún teldi leikstjórann Vincent Lambe vera að nýta sér þennan harm til að koma sér á framfæri í kvikmyndageiranum. Hún hvatti fólk einnig til að hunsa þessa mynd algjörlega þar sem hún hefði verið gerð í óþökk aðstandenda. 

Hún hefur talað fyrir því að drengirnir sem myrtu son hennar fái harðari refsingu en þeir voru dæmdir til átta ára fangelsisvistar. 

Vincent Lambe hafði áður tjáð sig við BBC um myndina en hann sagðist ekki búast við því að fjölskyldu Bulgers þætti þessi mynd þægileg þar sem morðingjar Bulgers væru sýndir í mannlegu ljósi.

„Ég vona samt að þau skilji hvers vegna myndin var gerð. Hún var gerð til að reyna að skilja hvers vegna 10 ára gamlir drengir fremja svona hræðilegan glæp. Ég er þeirrar skoðunar að ef við skiljum ekki af hverju þá eru líkur á að þetta gerist aftur,“ sagði Lambe.

Hann bætti við að myndin hefði ekki verið gerð með von um fjárhagslegan gróða og hafði enginn það í huga við gerð hennar. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×