Innlent

Guðlaugur Þór og Pompeo ræddu norðurskautið

Samúel Karl Ólason skrifar
Guðlaugur Þór og Mike Pompeo í Washington í kvöld.
Guðlaugur Þór og Mike Pompeo í Washington í kvöld. AP/Alex Brandon
Yfirvöld Íslands og Bandaríkjanna ætla að kanna leiðir til að bæta viðskipti og fjárfestingar ríkja á milli og þar að auki auka samstarf varðandi öryggismál. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu sem utanríkisráðherrarnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Mike Pompeo samþykktu eftir fund þeirra í Washington í dag. Á vef Stjórnarráðsins segir að viðskipti og varnar- og öryggismál hafi verið í brennidepli á fundinum.



Einnig hafi ráðherrarnir rætt um málefni norðurskautsins og formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu.

„Samband Íslands og Bandaríkjanna hefur alla tíð verið náið, meðal annars á sviði varnar- og öryggismála. Samstarf ríkjanna á því sviði stendur á traustum grunni varnarsamningsins og Atlantshafsbandalagsins. Bandaríkin eru auk þess stærsti einstaki markaður Íslands, bæði þegar horft er til vöru- og þjónustuviðskipta og beinna fjárfestinga á Íslandi, svo ekki sé minnst á þann mikla fjölda bandarískra ferðamanna sem heimsækir Ísland ár hvert,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra að fundinum loknum.

„Þá deilum við hagsmunum á norðurslóðum og horfum til aukins samstarfs í Norðurskautsráðinu þegar Ísland tekur þar við formennsku í maí. Góð samskipti við okkar góðu granna í vestri eru því afar mikilvæg. Vilji Bandaríkjastjórnar til að efla samvinnuna við okkur enn frekar kom glögglega í ljós á fundinum í dag.”

Í áðurnefndri yfirlýsingu segir að breytingar á aðstæðum á norðurslóðum ítreki mikilvægi þess að Ísland og Bandaríkin starfi náið saman varðandi öryggismál. Þar segir að ríkin muni auka samstarf innan Atlantshafsbandalagsins og viðhalda varnarsáttmálanum á milli Íslands og Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×