Fótbolti

Orri vill komast burt og lokar alls ekki á Val

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Orri Sigurður í leik með Val í fyrra.
Orri Sigurður í leik með Val í fyrra. vísir/andri
Orri Sigurður Ómarsson, miðvörður norska úrvalsdeildarliðsins Sarpsborg 08, vill komast burt frá félaginu um leið og tímabilinu lýkur í Noregi.

Miðvörðurinn var keyptur til Sarpsborg frá Val eftir að hann spilaði frábærlega með Íslandsmeistaraliði Vals í fyrra en hann var fljótlega lánaður til HamKam í norsku B-deildinni.

Þar spilaði hann alla leiki en fékk svo nánast ekkert að vera með eftir að hann var kallaður aftur úr láninu. Tímarnir hafa verið erfiðir síðan.

Hann spilaði svo lítið fyrir Sarpsborg að umsjónarmaður Twitter-síðu félagsins vissi ekki að hann hefði komið við sögu áður en að hann var lánaður og óskaði honum því til lukku með sinn fyrsta leik á dögunum.

„Ég hef látið mína umboðsmenn vita að þetta gangi ekki og ég vilji fara en lengra er málið ekki komið,“ segir Orri í viðtali við Morgunblaðið en hann hefur verið orðaður við endurkomu í Val. „Ég myndi aldrei loka á Ísland og hvað þá Val,“ segir þessi 23 ára gamli miðvörður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×