Fótbolti

Gísli lánaður til Svíþjóðar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gísli Eyjólfsson fer á vit ævintýranna í atvinnumennskunni
Gísli Eyjólfsson fer á vit ævintýranna í atvinnumennskunni vísir/bára
Gísli Eyjólfsson hefur gengið til liðs við sænska félagið Mjällby á láni frá Breiðabliki og mun spila með liðinu í sænsku B-deildinni á næsta tímabili.

Mjällby vann sér inn sæti í B-deildinni á nýloknu tímabili en liðið spilar undir stjórn Milos Milojevic, fyrrum þjálfara Breiðabliks og Víkings Reykjavíkur.

Tilkynnt var um komu Gísla til félagsins á heimasíðu þess í dag. Þar segir að Gísli sé „skotheldur miðjumaður sem býr mikið til fyrir liðsfélaga sína. Mjög sterkur einn á einn og góður skotmaður.“

Samningurinn er frá 1. janúar 2019 og gildir í eitt ár samkvæmt frétt Blikar.is. Þá hefur Mjällby forkaupsrétt á miðjumanninum þegar lánssamningurinn rennur út að ári.

Gísli er fæddur árið 1994 og á 106 meistaraflokksleiki að baki á Íslandi. Hann skoraði sjö deildarmörk í 22 leikjum fyrir Blika í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×