Fótbolti

Arnór skoraði er Lillestrøm hélt sér uppi en Start féll

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arnór er hann gekk í raðir Lilleström frá Hammarby.
Arnór er hann gekk í raðir Lilleström frá Hammarby. mynd/lillestrøm
Norska úrvalsdeildin í knattspyrnu kláraðist í dag með heilli umferð en þar voru margir Íslendingar í eldlínunni. Það var ýmist grátur eða gleði hjá okkar mönnum í Noregi í dag.

Matthías Vilhjálmsson var ónotaður varamaður hjá Rosenborg sem gerði 1-1 jafntefli við Bodo/Glimt á heimavelli en fyrir leikinn hafði Rosenborg tryggt sér titilinn. Þeir voru fimm stigum á undan Molde sem komu næstir.

Emil Pálsson spilaði í 70 mínútur er Sandefjord tapaði 3-1 fyrir Molde á heimavelli en fyrir leikinn var Sandefjord fallið úr deildinni. Þeir voru átta stigum frá öruggu sæti er deildin kláraðist.

Aron Sigurðarson sat á bekknum er Start tapaði 3-1 fyrir Haugesund en tapið gerir það að verkum að Start er aftur fallið niður í B-deildina eftir að hafa spilað í eitt ár meðal þeirra bestu.

Annað Íslendingalið, Lillestörm, heldur sér hins vegar uppi eftir frábæran 2-0 sigur á Kristiansund þar sem Arnór Smárason skoraði fyrsta mark Lilleström. Lilleström endar í tólfta sætinu.

Samúel Kári Friðjónsson var á bekknum hjá Vålerenga sem endaði í sjötta sæti norsku úrvalsdeildarinnar eftir 2-1 sigur á Ranheim í lokaumferðinni í dag.

Orri Sigurður Ómarsson spilaði í tuttugu mínútur fyrir Sarpsborg sem vann 2-0 sigur á Tromsö en Sarpsborg endar í áttunda sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×