Fótbolti

Ráðningu á yfirmanni knattspyrnumála frestað hjá KSÍ

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ. Vísir/Vilhelm
Stjórn Knattspyrnusambands Íslands hefur ákveðið að fresta ráðningu í stöðu yfirmanns knattspyrnumála sem auglýst var í síðasta mánuði. Umsóknarfrestur rann út þann 15. nóvember.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, vísaði í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu sambandsins þegar Vísir hafði samband við hann í dag. Í yfirlýsingunni segir að athugasemdir hafi borist stjórn KSÍ um að „slík stefnumarkandi ákvörðun gæti beðið umfjöllunar ársþings og nýrrar fjárhagsáætlunar“.

Guðni gerði ráðningu yfirmanns knattspyrnumála að kosningamáli hjá sér þegar kosið var til formennsku í KSÍ fyrir tæpum tveimur árum.

Sjá einnig:Guðni boðar skipulagsbreytingar hjá KSÍ

„Þetta hefur verið lengi á döfunni og sjálfsagt að taka frekari umræðu um þetta,“ sagði Guðni sem þarf að endurnýja umboð sitt á næsta ársþingi. Engar fregnir hafa borist um möguleg mótframboð.

Aðspurður segist hann ekki viss um að það sé óeining meðal aðildarfélaga KSÍ um ráðningu yfirmanns knattspyrnumála hjá sambandinu.

„Þetta er stór hreyfing. Ég vil meina að meirihluti forsvarsmanna félaganna sé sammála því að þetta geti styrkt okkar faglega starf. Það má ekki gleyma því að félög sem eiga lið í efstu tveimur deildunum þurfa samkvæmt leyfiskerfi okkar að vera með yfirþjálfara. Þetta er ekki ósvipað því starfi, nema á vettvangi KSÍ. Rökin fyrir því að ráðið sé í þessa stöðu séu því bæði veigamikil og nokkuð ljós,“ sagði Guðni.


Tengdar fréttir

Guðni boðar skipulagsbreytingar hjá KSÍ

Í dag eru 596 dagar síðan Guðni Bergsson hóf störf sem formaður KSÍ. Fyrsta daginn sagðist hann vera maður breytinga og boðaði komu yfirmanns knattspyrnumála hjá sambandinu. Það sér nú til lands í þessum málum tæpum 600 dögum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×