Innlent

Djúpivogur synjar frekari efnistöku

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Djúpivogur við Berufjörð.
Djúpivogur við Berufjörð. Vísir
Hreppsstjórn Djúpavogshrepps synjaði á fundi sínum fyrir helgi beiðni Vegagerðar um aukna efnistöku úr Svartagilsnámu vegna vegagerðar við botn Berufjarðar.

Í bókun hreppsfulltrúa, sem samþykkt var samhljóða, segir að efnistaka úr námunni sé langt umfram heimildir sem fólust í framkvæmdaleyfi hreppsins til Vegagerðarinnar. Álitamál sé hvort frekari efnistaka samræmist aðalskipulagi hreppsins.

„Í ljósi þessa er það ákvörðun sveitarstjórnar að framkvæmdaleyfi vegna aukinnar efnistöku verði ekki veitt að svo stöddu og jafnframt að efnistaka úr námu við Svartagilslæk verði tafarlaust stöðvuð, sem og önnur efnistaka vegna framkvæmdarinnar,“ segir þar enn fremur.

Vegagerðin áætlar að búið sé að taka 235 þúsund rúmmetra úr námunni og að taka þurfi um 49 þúsund rúmmetra til viðbótar. Heimild var fyrir töku 210 þúsund rúmmetra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×