Innlent

Sér fyrir endann á rannsókn á skútuþjófnaði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skútan Inook við bryggju á Snæfellsnesi. Henni var beint í höfn í Rifi eftir að maðurinn var stöðvaður á Breiðafirði.
Skútan Inook við bryggju á Snæfellsnesi. Henni var beint í höfn í Rifi eftir að maðurinn var stöðvaður á Breiðafirði. Vísir
Rannsókn á meintum skútuþjófnaði á Ísafirði um miðjan október er á lokametrunum, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vestfjörðum. Erlendur karlmaður hefur einn réttarstöðu sakbornings í málinu.

Lögregla vill ekkert gefa frekar upp um þjóðerni mannsins eða tengsl hans við franskan eiganda skútunnar. Skýrslur hafa verið teknar af öllum hlutaðeigandi og þá hafa upptökur úr öryggismyndavélum við Ísafjarðarhöfn verið skoðaðar við rannsókn málsins.

Lögregla vill heldur ekki veita upplýsingar um það hvort maðurinn hafi átt sér vitorðsmenn. Þá er ekki hægt að segja til um það hvenær rannsókn lýkur nákvæmlega, en ekki er gert ráð fyrir að hún muni taka langan tíma til viðbótar.

Meintur skútuþjófur var úrskurðaður í farbann til 12. nóvember næstkomandi. Hann er grunaður um að hafa stolið skútunni Inook úr Ísafjarðarhöfn þann 14. október síðastliðinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×