Innlent

Steinullin fauk í Neslaugina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sundlaug Seltjarnarness.
Sundlaug Seltjarnarness. Vísir/KTD
Nokkrir sundlaugagestir kvörtuðu í gær yfir óboðnum gesti í Sundlaug Seltjarnarnes, betur þekkt sem Neslaugin. Þannig er að framkvæmdir standa yfir við íþróttahúsið sem stendur upp við sundlaugina.

„Þeir voru að smíða steinull á þakinu fyrir ofan okkur og áttuðu sig ekki á vindáttinni,“ segir Haukur Geirmundsson, framkvæmdastjóri laugarinnar. Þeir sem þekkja til á Nesinu vita að vindur er reglulegur gestur á svæðinu.

Hann segir nokkrar flyksur hafa fokið ofan í laugina en þetta hafi verið í skamman tíma.

Einhverjir gestir hafi kvartað og var settur upp miði í lauginni til að láta sundlaugagesti vita. Var varað við mögulegum kláða vegna steinullarinnar.

Haukur segir málið tæplega fréttnæmt enda sé vandamálið úr sögunni.

Smiðirnir hafi einfaldlega fært sig inn þegar þeir áttuðu sig á vandamálinu og ekki sést tangur né tetur af steinull í lauginni síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×