Erlent

Blóðugir kjördagar í afgönsku kosningunum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Upphaflega átti kjörfundur aðeins að fara fram á laugardag en vegna vankanta við framkvæmd kosninganna var hann framlengdur fram á sunnudag. Myndin er tekin við kjörstað í gær.
Upphaflega átti kjörfundur aðeins að fara fram á laugardag en vegna vankanta við framkvæmd kosninganna var hann framlengdur fram á sunnudag. Myndin er tekin við kjörstað í gær. vísir/epa
Þingkosningar fóru fram í Afganistan um helgina. Upphaflega átti kjörfundur aðeins að fara fram á laugardag en vegna vankanta við framkvæmd kosninganna var hann framlengdur fram á sunnudag.

Tæplega níu milljónir Afgana voru á kjörskrá og gátu þeir valið milli 84 mismunandi stjórnmálaflokka. Kjörstaðir voru rúmlega fimm þúsund víðsvegar um landið og kjördeildirnar ríflega fjórfalt fleiri. Kosið var um 250 sæti í fulltrúadeild þingsins en þar af er ríflega fjórðungur frátekinn fyrir konur. Þriðjungur kjörskrárstofns voru kvenmenn.

Kjörstaðir voru opnaðir klukkan sjö á laugardagsmorgni og stóð til að þeim yrði lokað klukkan fjögur að staðartíma sama dag. Því var hins vegar slegið á frest þar sem hnökrar voru á framkvæmd kosninganna. Kjörstjórnarmenn mættu seint til vinnu og þá virkaði rafrænt kosningakerfi ekki sem skyldi.

Tíðar árásir á frambjóðendur, kjörstaði og hús sem hýstu kjörgögn settu svip sinn á kosningarnar en minnst tíu frambjóðendur týndu lífi í slíkum árásum. Þá féllu minnst átján borgarar og 25 særðust til viðbótar í árás á kjörstað í höfuðborginni Kabúl.

Talsmaður innanríkisráðuneytisins sagði við fréttastofu Al Jazeera að minnst 27 hefðu farist og meira en hundrað særst á kjördag. Sextíu manns, sem grunaðir eru um að hafa reynt að svindla í kosningunum, voru handteknir.

Yfirkjörstjórn landsins mun kunngjöra úrslit í síðasta lagi 20. desember en talning atkvæða tekur oft langa stund í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×