Fótbolti

Starf yfirmanns knattspyrnumála hjá KSÍ loksins auglýst

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðni og KSÍ taka við umsóknum til 15. nóvember.
Guðni og KSÍ taka við umsóknum til 15. nóvember. vísir/getty
KSÍ hefur opnað fyrir umsóknir vegna starfs yfirmanns knattspyrnumála hjá sambandinu. Eftir því hefur verið beðið í talsverðan tíma.

Starfið er kallað „Yfirmaður knattspyrnumála/Yfirmaður knattspyrnusviðs“. Umsóknarfrestur er til 15. nóvember.

Þegar Guðni Bergsson var kjörinn formaður KSÍ boðaði hann komu yfirmanns knattspyrnumála. Hann sagði svo í viðtali þann 27. nóvember á síðasta ári að staðan yrði auglýst á þessu ári. Nú ellefu mánuðum síðar hefur staðan verið auglýst.

Í viðtali við Vísi þann 2. október síðastliðinn staðfesti Guðni að mönnuð yrði staða sem hingað til hefði verið kölluð yfirmaður knattspyrnumála.

„Við erum að fara í gegnum þessar skipulagsbreytingar og þá sjáum við hvernig ráðningum verður hagað. Ég veit að menn bíða með óþreyju eftir þessu en þetta fer að koma í ljós, sama hvað þessi tiltekna staða mun heita og svo framvegis. Það eru skipulagsbreytingar fram undan og það verður mönnuð staða í þá veru sem hingað til hefur verið kölluð yfirmaður knattspyrnumála,“ sagði Guðni í byrjun mánaðarins en nú hefur komið í ljós að staðan heitir yfirmaður knattspyrnumála eftir allt saman.

Hér má lesa auglýsingu KSÍ um starfið.


Tengdar fréttir

Guðni boðar skipulagsbreytingar hjá KSÍ

Í dag eru 596 dagar síðan Guðni Bergsson hóf störf sem formaður KSÍ. Fyrsta daginn sagðist hann vera maður breytinga og boðaði komu yfirmanns knattspyrnumála hjá sambandinu. Það sér nú til lands í þessum málum tæpum 600 dögum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×