Innlent

Þögn ríkir um mál Áslaugar eftir fund með Orkuveitunni

Sveinn Arnarsson skrifar
Áslaug Thelma Einarsdóttir.
Áslaug Thelma Einarsdóttir.
Leynd ríkir yfir niðurstöðu fundar stjórnarmanna Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Orku náttúrunnar (ON) annars vegar og Áslaugar Thelmu Einarsdóttur hins vegar sem rekin var í síðasta mánuði úr stjórnunarstöðu hjá ON.

Á fundinum síðastliðinn fimmtudag sátu Helga Jónsdóttir, tímabundið forstjóri Orkuveitunnar, Berglind Rán Ólafsdóttir, tímabundið forstjóri ON, Áslaug Thelma auk lögmanna beggja aðila. Var þar farið yfir málið. Sameiginlega var tekin ákvörðun á fundinum um að efni hans og niðurstaða yrði aðeins milli þeirra einstaklinga sem sátu téðan fund.

Áslaug Thelma gaf vilyrði fyrir því í gær að ræða við blaðamann Fréttablaðsins en stóð ekki við þau orð þegar sóst var eftir því.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, staðfestir að fundurinn hafi átt sér stað og segir að efni hans sé trúnaðarmál þeirra sem sóttu fundinn. „Það er í gangi rannsókn á starfsmannamálum fyrirtækisins og mál Áslaugar er þar á meðal,“ segir Eiríkur. Hann segir enn fremur að uppsögn Áslaugar sé enn í gildi og hafi ekki breyst á fundinum síðasta fimmtudag.

Áslaug var rekin sem forstöðumaður einstaklingsmarkaðar ON í síðasta mánuði. ON er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur. Málið komst í fjölmiðla eftir ákall eiginmanns Áslaugar Thelmu um að þau fengju að vita ástæður þess að eiginkona hans var látin taka pokann sinn.

Opinber umfjöllun um málið hratt af stað nokkurri atburðarás. Bjarni Már Júlíusson, var rekinn sem forstjóri ON fyrir óviðeigandi framkomu og nafni hans, Bjarni Bjarnason, steig tímabundið til hliðar sem forstjóri Orkuveitunnar. Samhliða þessu á að fara í heildarendurskoðun á vinnustaðamenningu innan Orkuveitunnar og tilteknum starfsmannamálum innan fyrirtækisins.

Þegar Bjarni Már var látinn taka pokann sinn átti fyrst að setja Þórð Ásmundsson í starfið. Það var hins vegar afturkallað vegna ásakana í hans garð um kynferðisbrot áður en hann hóf störf hjá fyrirtækinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×