Erlent

Mukwege og Murad hljóta Friðarverðlaun Nóbels

Atli Ísleifsson skrifar
Nadia Murad.
Nadia Murad. Getty
Norska Nóbelsnefndin tilkynnti í morgun að þau Denis Mukwege og Nadia Murad hljóti Friðarverðlaun Nóbels árið 2018. Þau fá verðlaunin fyrir baráttu sína gegn kynferðisofbeldi í stríðsrekstri.

Í rökstuðningi Nóbelsnefndarinnar segir að bæði hafi þau lagt sitt af mörkum til að beina kastljósinu að slíkum stríðsglæpum. „Mukwege er hjálparstarfsmaðurinn sem helgaði líf sitt því að verja þessi fórnarlömb. Murad er sjónarvotturinn sem greinir frá ofbeldinu sem hún og aðrir hafa þurft að þola.“

Hefur starfað í Kongó

Mukwege hefur starfað í Lýðveldinu Kongó og frá því að Panzi sjúkrahúsinu var komið á laggirnar í Buvaku árið 2008 hafa Mukwege og starfsmenn hans aðstoðað þúsundir sjúklinga sem hafa þurft að þola slíkar árásir. Borgarstríð hefur staðið í Kongó um langt skeið og hafa rúmlega sex milljónir manna fallið í átökunum.

Denis Mukwege.Getty/Victor Boyko
Slapp úr kynlífsánauð

Murad tilheyrir minnihlutahópi Jasída í norðurhluta Íraks þar sem hún bjó með fjölskyldu sinni í afskekktu þorpi, Kocko. Hryðjuverkasamtökin ISIS hófu í ágúst 2014 skipulagðar árásir gegn Jasídum sem miðaði að því að útrýma þeim og var yngri konum mörgum rænt og þær gerðar að kynlífsþrælum. 

Áætlað er að Murad sé ein um þrjú þúsund kvenna og stúlkna úr hópi Jasída sem eru fórnarlömb brota liðsmanna ISIS. Murad tókst að flýja eftir um þrjá mánuði í haldi ISIS-liða. Hún hefur rætt opinberlega um þær raunir sem hún og aðrar konur hafa þurft að þola og árið 2016 var hún gerð að velgjörðarsendiherra Sameinuðu þjóðanna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×