Fótbolti

Kom mér skemmtilega á óvart

Hjörvar Ólafsson skrifar
Jón Dagur Þorsteinsson fagnar marki sínu fyrir Vendsyssel í sigri á stórliði
FC København í dönsku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.
Jón Dagur Þorsteinsson fagnar marki sínu fyrir Vendsyssel í sigri á stórliði FC København í dönsku úrvalsdeildinni um síðustu helgi. Vísir/Getty
Jón Dagur Þorsteinsson, sem leikur þessa stundina með danska liðinu Vendsyssel á láni frá enska liðinu Fulham er einn fjögurra leikmanna sem koma inn í íslenska A-landsliðið í knattspyrnu fyrir komandi verkefni með liðinu. Hann hefur leikið vel bæði fyrir U-21 árs landsliðið í síðustu leikjum þess og látið til sín taka hjá Vendsyssel undanfarið og hlaut náð fyrir augum Eriks Hamrén og Freys Alexanderssonar, þjálfara íslenska A-landsliðsins, að þessu sinni.

„Þetta er auðvitað mjög kærkomið og mikill heiður. Þetta kom mér ekki algerlega í opna skjöldu, en samt alveg flatt upp á mig þegar ég sá þetta. Ég hef verið að spila reglulega hér í Danmörku og gengið vel að mínu mati, þannig að mér fannst þetta alveg raunhæft. Ég var hins vegar ekki búinn að fá að vita af þessu áður en þetta vera opinberað, þannig að ég var ekki viss,“ segir Jón Dagur í samtali við Fréttablaðið.

„Ég býst ekki við því að fá spil­mínútur í þessum verkefnum, en verð auðvitað klár ef kallið kemur. Mér finnst líklegra að hugmyndin sé að ég fái smjörþefinn af því hvernig hlutirnir virka hjá A-liðinu og að kynnast tempóinu á æfingum hjá liðinu. Þetta er líklega töluvert stökk frá U-21 árs liðinu og það verður bara gaman að takast á við það,“ segir Jón Dagur enn fremur.

„Það er gaman að við Albert [Guðmundsson] fáum kallið að þessu sinni og ég tel að fleiri leikmenn í U-21 árs liðinu gætu dottið inn í A-hópinn innan tíðar. Við erum með marga góða unga leikmenn og ég tel að framtíðin sé björt hjá A-liðinu. Nú er það bara mitt að grípa þetta tækifæri og standa mig vel. Mér líður annars vel í Danmörku og það er gott að fá að spila reglulega með aðalliði. Mér hefur líka gengið vel hérna og vonandi heldur það bara áfram,“ segir HK-ingurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×