Erlent

Vill tryggja öryggi fjölskyldu sinnar og njóta sanngirni

Samúel Karl Ólason skrifar
Brett Kavanaugh.
Brett Kavanaugh. AP/Andrew Harnik
Christine Blasey Ford, sem hefur sakað Brett Kavanaugh, sem tilnefndur er til Hæstaréttar Bandaríkjanna, um nauðgun þegar þau voru í menntaskóla er tilbúin til að svara spurningum öldungadeildarþingmanna. Fyrst þarf þó að uppfylla ákveðin skilyrði sem snúa að því að hún njóti sanngirni og öryggis.

Ford og fjölskylda hennar hafa þurft að flýja heimili þeirra vegna morðhótana. Hún hefur beðið um tíma til að tryggja öryggi fjölskyldunnar, undirbúa málflutning sinn og ferðast til Washington DC.

Hún myndi þá mæta á fund dómsmálanefndar öldungaþingsins og Kavanaugh myndi mæta sömuleiðis. Þau myndu bæði segja sögu sína um hvað gerðist í unglingasamkvæminu snemma á 9. áratug síðustu aldar.

Ford segir að þegar þau hafi verið í samkvæmi á unglingsaldri hafi Kavanaugh haldið henni niðri og haldið fyrir munn hennar, káfað á henni, reynt að rífa hana úr fötunum og reynt að nauðga henni á meðan vinur hans horfði á. Hún hafði sent trúnaðarbréf til þingmanna Demókrataflokksins fyrr í sumar en steig fram undir nafni á dögunum og sagði sögu sína. Hún er nú 51 árs gömul og starfar sem sálfræðiprófessor í Kaliforníu

Sjá einnig: Kona stígur fram undir nafni og sakar dómaraefni Trump um kynferðisárás



Til stóð að nefndarfundurinn yrðu haldinn á mánudaginn en nú stendur til að vitnaleiðslan fari fram á fimmtudaginn, samkvæmt heimildum AP fréttaveitunnar. Það er þó ekki víst að af því verði.



Repúblikanar eru með 11-10 meirihluta í nefndinni og þar sitja einungis fjórar konur. Allar tilheyra þær Demókrataflokknum og hafa Repúblikanar áhyggjur af því hvernig það lyti út ef ellefu eldri menn spyrji konu sem segist hafa orðið fyrir kynferðisárás ágengra spurninga. Því hefur því verið velt upp að fá utanaðkomandi kvenkyns lögfræðinga til að spyrja Ford í stað Repúblikana í dómsmálanefndinni.

Þeir hafa sömuleiðis áhyggjur af því að stutt er í þingkosningar og er líklegt að sýnt verði frá fundinum í sjónvarpi.

Kavanaugh sjálfur hefur hins vegar viljað segja sögu sína opinberlega en hann hefur þvertekið fyrir að hafa brotið gegn Ford.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×