Erlent

„Ég er ekki að fara neitt“

Samúel Karl Ólason skrifar
Brett Kavanaugh og Ashley Estes Kavanaugh.
Brett Kavanaugh og Ashley Estes Kavanaugh. AP/Jacquelyn Martin
„Ég er ekki að fara neitt,“ segir Brett Kavanaugh, sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur tilnefnt til Hæstaréttar. Tvær konur hafa stigið fram og sakað Kavanaugh um kynferðisbrot á árum áður en hann þvertekur fyrir að hafa brotið af sér. Þess í stað segir hann ásakanirnar drifnar áfram af pólitík og þær hafi dregið stjórnmálaumræðu Bandaríkjanna niður á lægra plan.

Til stendur að bæði Kavanaugh og Christine Blasey Ford, skólasystir dómarans úr menntaskóla sem segir hann hafa reynt að nauðga sér, mæti á fund dómsmálanefndar öldungadeildarinnar á fimmtudaginn þar sem hvort þeirra mun segja sína sögu.

Repúblikanar hafa nú sett á laggirnar herferð til að verja Kavanaugh og tilnefningu hans og til marks um það fóru Kavanaugh og eiginkona hans í viðtal hjá Fox News sem sýnt er nú í kvöld.

Dagurinn byrjaði á því að Trump sagðist standa með Kavanaug „alla leið“ og að ásakanirnar væru runnar undan rifjum pólitískra andstæðinga sinna.



Í kjölfarið sendi Kavanaugh bréf til nefndarinnar þar sem hann sagði að hann myndi ekki láta „ógna sér“ til að stíga til hliðar. Þá sagði hann að um herferð gegn sér væri að ræða og að markmið hennar væri að sverta mannorð hans.

Skömmu seinna, var Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana á öldungadeildinni, mættur í pontu þar sem hann sagði reiður að Demókratar væru búnir að kasta „allri þeirri drullu sem þeir hefðu skapað“. Hann sagði að það yrði kosið um tilnefningu Kavanaugh skömmu eftir fundinni á fimmtudaginn en hann nefndi þó enga dagsetningu.

Kellyanne Conway, ráðgjafi Trump, sagði einnig í dag að ásakanirnar litu út fyrir að vera einhvers konar samsæri.

Demókratar hafa kallað eftir því að hægt verði á tilnefningarferli Kavanaugh á meðan ásakanirnar verði rannsakaðar til fullnustu.

Samkvæmt heimildum AP fréttaveitunnar er Trump sannfærður um að Demókratar og fjölmiðlar vinni í sameiningu að því að grafa undan Kavanaugh. Hann lítur á nýju ásakanirnar gegn dómaranum, sem voru birtar í gær, sem staðfestingu á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×