Innlent

Gríðarmikið vatn hefur flætt yfir Suðurlandsveg

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Gríðarmikið vatn úr Skaftárhlaupi hefur flætt yfir Suðurlandsveg vestan við Holtsveg og Kirkjubæjarklaustur frá því í morgun og hefur vegurinn verið lokaður í allan dag. Yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni segir þetta vera alveg nýja stöðu í Skaftárhlaupi.

Skaftárhlaup rénar hægt að sögn vatnamælingamanna á Veðurstofu Íslands. Búist er við að hlaupið taki nokkra daga í viðbót og jafnvel allt að viku. Snemma í morgun byrjaði að flæða um Suðurlandsveg um Eldhraun og var veginum lokað klukkan 10 í morgun.

Hlaupið tók með sér aur og drullu úr hrauninu frá 2015 sem flæddi svo yfir veginn. Yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Vík í Mýrdal segir að menn hafi verið að veita vatninu af veginum klukkan eitt í dag.

„Aðgerðirnar ganga vel en vatnið minnkar hægt, það kemur sífellt út í hraunið þannig að þetta hangir í að vera svipað og fyrir tveimur tímum síðan,“ segir Ágúst Freyr Bjartmarsson.

Hann sagði ekki tímabært að fara að huga að opnun vegarins um miðjan dag.

„Það er allavega ekki tímabært að fara að hugsa um opnun strax.“

Hvað heldurðu að sé langt í það?

„Þetta er bara spurning um vatnið, hvenær það byrjar að minnka og sjatna. Hér er risastórt stöðuvatn og við fáum bara brotabrot af því sem læðist yfir veginn.“


Tengdar fréttir

Skemmdir á Suðurlandsvegi vegna Skaftárhlaups

Suðurlandsvegi vestan við Holtsveg og Kirkjubæjarklaustur var lokað á tíunda tímanum í morgun vegna vatns úr Skaftárhlaupi sem flæðir yfir veginn. Hjáleið er opin um Meðallandsveg. Vatnamælingamaður á Veðurstofunni segir Skaftárhlaup réna hægt og erfitt að segja til um hvað flóðið vari lengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×