Fótbolti

Íslensku liðin spila Evrópuleiki samfellt frá fjögur til tíu í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Heiðar Þorvaldsson tryggði ÍBV bikarinn í fyrra og þar með sæti í Evrópukeppninni.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson tryggði ÍBV bikarinn í fyrra og þar með sæti í Evrópukeppninni. Vísir/Hafliði Breiðfjörð
Þrjú íslensk félög spila Evrópuleiki í dag þar af eru tvö þeirra á heimavelli. Liðin eru FH, ÍBV og Stjarnan og leikir þeirra fara allir fram á sitthvorum tíma.

FH-ingar byrja út í Finnlandi á móti FC Lahti klukkan 16.00 að íslenskum tíma. Þá er komið að ÍBV á heimavelli á móti norska félaginu Sarpsborg 08 klukkan 18.00 og loks taka Stjörnumenn á móti Nömme Kalju frá Eistlandi klukkan 20.00.

Allir leikirnir eru fyrri leikir liðanna í fyrstu umferð í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Þetta þýðir jafnframt að íslensk félög eru að spila Evrópuleiki samfellt frá fjögur til tíu í kvöld eða sex tíma í röð. Sannkallað íslenskt Evrópukvöld í fótboltanum.  

Valur reið á vaðið í gær þegar liðið vann glæsilegan 1-0 sigur á Noregsmeisturum Rosenborg í forkeppni Meistaradeildarinnar. Það boðar vonandi gott fyrir þetta Evrópusumar hjá íslensku liðunum.

Það væri ekki slæmt ef Eyjamenn sæju til þess að íslenskt lið myndi vinna Norðmenn tvö kvöld í röð. Leikur ÍBV verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

Slái FH-ingar út lið FC Lahti þá mætir Hafnarfjarðarliðið liði Hapoel Haifa frá Ísrael.

Slái Eyjamenn út lið Sarpsborg 08 þá mætir Eyjaliðið liði St. Gallen frá Sviss.

Slái Stjörnumenn út lið Nömme Kalju þá mætir Garðabæjarliðið sigurvegaranum úr leikjum KuPS frá Finnlandi og FCK frá Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×