Fótbolti

Hólmar Örn og félagar grýttir eftir niðurlæginguna í Evrópudeildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Leikmenn Vaduz fagna marki í Búlgaríu í gær.
Leikmenn Vaduz fagna marki í Búlgaríu í gær. vísir/epa
Þær voru ekki fallegar senurnar eftir leik búlgarska liðsins Levski Sofia og Vaduz frá Liechtenstein í Evrópudeildinni í gær þar sem að Vaduz gerði hið ótrúlega og lagði Levski-menn að velli.

Vaduz, sem spilar í fjórðu deild svissneska boltans en kemst í Evrópu á hverju ári sem bikarmeistari í Lichenstein, vann fyrri leikinn, 1-0, á heimavelli. Liðið tapaði svo 3-2 í Sofiu í gær og komst áfram með fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Stuðningsmenn Levski, sem íslenski landsliðsmaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson spilar með, voru gjörsamlega trylltir eftir tapið og grýttu bæði sætum sem þeir rifu úr stúkunni, grjóti og öðrum lausamunum inn á völlinn.

Reiði þeirra bendist að sínum mönnum en leikmenn Vaduz áttu fótum sínum fjör að launa er þeir hlupu undir grjótkastið á leið til búningsklefa.

Markvörður Levski Sofia gerði tvenn mistök í fyrri hálfleik sem kostuðu mark. Hann fékk svo mikið að heyra það úr stúkunni að þjálfari liðsins tók hann af velli í hálfleik og setti varamarkvörðinn inn á. Aðalmarkvörður Levski Sofia er jafnframt fyrirliði liðsins.

Forsvarsmenn Levski Sofia eru ekki bara svekktir með tapið heldur vita þeir að félagið fær refsingu frá FIFA, samkvæmt fréttum frá Búlgaríu. Þá óttast þeir að liðið fái ekki að taka þátt í Evrópukeppnum á næstu árum.

Hólmar Örn sat allan tímann á varamannabekk Levski Sofia í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×