Innlent

Mannréttindadómstóllinn tekur kæru vegna Landsréttarmálsins til meðferðar

Atli Ísleifsson skrifar
Íslenska ríkið hefur frest til 18. ágúst að svara spurningum dómstólsins.
Íslenska ríkið hefur frest til 18. ágúst að svara spurningum dómstólsins. Vísir/Vilhelm

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ákveðið að taka kæru vegna Landsréttarmálsins svokallaða til meðferðar og krafist skýringar frá íslenskum stjórnvöldum.

RÚV greinir frá málinu og segir að þessi fljóta málsmeðferð sé einsdæmi, en einungis um mánuður er liðinn síðan kæran barst inn á borð dómstólsins. Ástæða þessa er sögð alvarleg réttaróvissa sem skapist hér á landi vegna málsins að því er segir í frétt RÚV.

Hæstiréttur Íslands staðfesti þann 24. maí dóm Landsréttar í máli manns sem var dæmdur í sautján mánaða fangelsi fyrir margvísleg brot. Þar með staðfesti Hæstiréttur einnig að Arnfríður Einarsdóttir dómari hafi ekki verið vanhæf til að dæma í málinu í Landsrétti.

Ekki fengið réttláta meðferð fyrir dómi

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður hafði krafist þess að Arnfríður myndi víkja sæti í málinu vegna vanhæfis, þar sem hún hafi ekki verið skipuð dómari með lögmætum hætti. Þar með hefði umbjóðandi hans ekki fengið réttláta meðferð fyrir dómi. Arnfríður Einarsdóttir var í hópi þeirra fjögurra sem Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra skipaði sem dómara við Landsrétt þvert á tillögu hæfnisnefndar. Með kröfu sinni lét Vilhjálmur reyna á gildi dóma sem kveðnir eru upp af þeim dómurum á hinu nýja millidómsstigi sem ekki voru í hópi þeirra sem dómnefnd mat hæfasta í aðdraganda skipunar í Landsrétt.  Eftir að dómurinn féll í Hæstarétt sagðist Vilhjálmur ætla að skjóta málinu til Mannréttindadómstólsins í Strassborg.

Í frétt RÚV er vísað í bréf sem hafi borist íslenskum stjórnvöldum frá Mannréttindadómstólnum þar sem meðal annars sé spurt er hvernig það samræmist ákvæði mannréttindasáttmála að skipun dómara við Landsrétt hafi ekki fylgt þeim ákvæðum laga að Alþingi greiði atkvæði um hvert dómaraefni fyrir sig. Greitt var atkvæði um tillögu dómsmálaráðherra í heild sinni.

Íslenska ríkið hefur frest til 18. ágúst að svara spurningum dómstólsins en nánar má lesa um bréf Mannréttindadómstólsins í frétt RÚV.


Tengdar fréttir

Hæfismál flutt í næstu viku

Kærumál um þá kröfu að Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari víki sæti í máli manns er ákærður er fyrir umferðarlagabrot er komið á dagskrá Hæstaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×